Fara í efni
Íþróttir

Nökkvi kominn í hóp fyrirmyndarfélaga ÍSÍ

Til fyrirmyndar! Tryggvi Jóhann Heimisson, formaður Nökkva, til hægri, og Rúnar Þór Björnsson, forveri hans til fjölda ára, glaðir í bragði eftir að klúbbnum var veitt viðurkenningin í gær.

Siglingaklúbburinn Nökkvi á Akureyri fékk í gær viðurkenningu sem fyrirmyndarfélag Íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ). Nökkvi hefur lengi stefnt að þessari viðurkenningu og hún varð að veruleika þegar Viðar Sigurjónsson, skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri, afhenti Tryggva Jóhanni Heimissyni formanni Nökkva viðurkenninguna og fána fyrirmyndarfélaga.

Til að verða fyrirmyndarfélag þarf að uppfylla ýmiskonar skilyrði sem lúta að starfsemi félags og stefnu í nokkrum málaflokkum, svo sem fræðslu- og forvarnarmálum, jafnréttismálum, umhverfismálum, persónuverndarmálum, menntun þjálfara og siðareglum.

Viðar Sigurjónsson, skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri, afhendir Tryggva Jóhanni Heimssyni, formanni Nökkva, skjal til staðfestingar viðurkenningunni.