Fara í efni
Íþróttir

Nokkrir smitaðir – Arnór ekki í þeim hópi

Nokkrir liðsfélagar Arnórs Þórs Gunnarssonar í Bergischer eru með kórónuveiruna en Akureyringurinn slapp. Næstu leikjum liðsins í þýsku 1. deildinni í handbolta hefur verið frestað.

„Við spiluðum um helgina og á mánudaginn kom í ljós að nokkrir leikmenn úr liði andstæðingsins hefðu verið eða voru jákvæðir í skimun. Við vorum sendir strax í skimun á þriðjudaginn og þá kom í ljós að nokkrir hefðu smitast hjá okkur,“ sagði Arnór við Akureyri.net í morgun.

„Við fórum aftur í skimun í gær og munum fara aftur í skimun eftir helgi. Mér líður vel og er sem betur fer neikvæður,“ sagði Arnór. „Við verðum í sóttkví til 11. apríl. Þótt ég hafi verið neikvæður í báðum prófunum þarf ég að vera í sóttkví; hér eru aðrar reglur en heima – fólk er allt sett í 14 daga sóttkví þegar svona kemur upp, sama hvað.“