Fara í efni
Íþróttir

Naumt tap gegn Dönum og leikið um 5.-8. sæti

Mynd af vef Handknattleikssambands Íslands

Íslenska U-19 ára landsliðið í handbolta tapaði fyrir Dönum í 8 liða úrslitum heimsmeistaramótsins í dag. Eftir góða byrjun íslenska liðsins, sem var m.a. fimm mörkum yfir í leikhléi, náðu Danir að naga niður forskotið í seinni hálfleik og síga fram úr. Lokatölur 32:30 Dönum í hag, sem eru þar með komnir í undanúrslit mótsins en íslenska liðið leikur um 5.-8. sæti á mótinu.

Íslenska liðið var alltaf skrefi á undan því danska í fyrri hálfleik og staðan í leikhléi var 17:12 Íslandi í vil. Danska liðið kom hins vegar ákveðið til leiks í seinni hálfleik og náði að jafna leikinn um hann miðjan. Danir komust síðan yfir og náðu mest fimm marka forskoti, 30:25. Þá tóku íslensku strákarnir við sér og minnkuðu muninn í tvö mörk en nær komust þeir ekki.

Danska liðið er því komið í undanúrslit og freistar þess að landa heimsmeistaratitli í 19 ára aldursflokknum en fyrir eru Danir handhafar titlanna í karlaflokki og U-21 árs flokki. Íslenska liðið mun leika um sæti 5.-8. á mótinu og andstæðingurinn á morgun verður tapliðið úr viðureign Ungverja og Þjóðverja. Lokaleikur íslenska liðsins verður á sunnudag.

Mörk Íslands í dag – nöfn KA-strákanna feitletruð: Ágúst Guðmundsson 8/3, Garðar Ingi Sindrason 8, Dagur Árni Heimisson 6, Bessi Teitsson 3, Jens Bragi Bergþórsson 2, Stefán Magni Hjartarson 2, Andri Erlingsson 1.

Varin skot: Jens Sigurðarson 7, 21% – Sigurjón Bragi Atlason 1/1, 20%.