Fara í efni
Íþróttir

Ná Þórsarar að fylgja fyrsta sigrinum eftir?

Ragnar Ágústsson, nýkjörinn íþróttakarl Þórs 2021, verður í eldlínunni í kvöld gegn gamla liðinu sín…
Ragnar Ágústsson, nýkjörinn íþróttakarl Þórs 2021, verður í eldlínunni í kvöld gegn gamla liðinu sínu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar taka á móti liði Tindastóls í kvöld, í efstu deild Íslandsmótsins í körfubolta, Subway deildinni. Liðin áttu að mætast 28. desember en leiknum var frestað vegna Covid-19 smita á Sauðárkróki. Leikurinn hefst klukkan 19.00 í Íþróttahöllinni.

Lið Þórs er neðst í deildinni með tvö stig en Tindastóll er í sjötta sæti með 12 stig. Þórsarar unnu fyrsta sigurinn í vetur síðasta fimmtudag þegar Grindvíkingar komu í heimsókn. Spennandi verður að sjá hvort þeir ná að fylgja eftir sigur gegn því hörkuliði gegn öðru sterku í kvöld.

Aðeins er leyfi fyrri 100 áhorfendum í kvöld, í tveimur 50 manna sóttvarnahólfum, og grímuskylda er á leiknum.

Fyrir þá sem ekki komast á leikinn er vert að benda á að hann verður sýndur beint á sjónvarpsrás Þórs. Smellið hér til að horfa.