Fara í efni
Íþróttir

Mjög stoltur - en fékk hnút í magann fyrst

Arnór Þór Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í handknattleik, fyrir utan hótel Íslendinganna í Kaíró í gær. Ljósmynd: Ívar Benediktsson.

Akureyringurinn Arnór Þór Gunnarsson, landsliðsfyrirliði Íslands, fer fyrir sínum mönnum í kvöld þegar „strákarnir okkar“ mæta til leiks á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi og etja kappi við góðkunningja sína frá Portúgal. Þjóðirnar mættust tvisvar í síðustu viku í undankeppni EM og hafði hvor betur á heimavelli.

Akureyringar eiga fjóra glæsilega fulltrúa á HM í handbolta að þessu sinni. Tvo leikmenn úr Þór – Arnór Þór og Odd Gretarsson, og tvo þjálfara úr KA, goðsögnina Alfreð Gíslason, sem þjálfar Þýskaland, og Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfara Bahrein. Akureyri.net óskar þeim að sjálfsögðu öllum gæfu og gengis á mótinu.

Flautað verður til leiks í kvöld kl. 19.30 að íslenskum tíma og verður leikurinn sýndur beint í Ríkissjónvarpinu.

Arnór Þór hlakkar til leiksins í kvöld. Íslendingar unnu stórsigur á Portúgölum í Hafnarfirði á sunnudaginn en fyrirliðinn blæs á meintar samsæriskenningar um að þjálfari andstæðinganna hafi af ásettu ráði gefið eftir til að gera Íslendinga óþarflega sigurvissa fyrir leik kvöldsins.

„Ég held að þeir hafi alls ekki verið að reyna að plata okkur; þessi leikur var líka mjög mikilvægur fyrir þá í baráttunni um að vinna riðilinn en nú erum við með yfirhöndina því við unnum þá með meiri mun en þeir okkur úti í fyrri leiknum,“ sagði Arnór í samtali við Akureyri.net í vikunni.

Íslenska liðið var arfaslakt í fyrri hálfleiknum á Ásvöllum á sunnudaginn. Arnór fer ekkert í grafgötur með það, enda ástæðulaust. „Við vorum bara á hælunum og gerðum ekki það sem við ætluðum, þeir gengu á lagið og fengu dauðafæri eftir dauðafæri í fyrri háfleiknum. Í seinni hálfleik spiluðum við hins vegar mjög vel, bæði í sókn og vörn. Þeir fundu engar lausnir gegn því og svo lokaði Ágúst Elí náttúrlega markinu.“

Portúgalar voru ótrúlegir klaufar á lokakafla fyrri hálfleiks. Höfðu örugga forystu en nokkrar sóknir í röð fór markmaðurinn af velli svo þeir voru sjö í sókninni gegn sex varnarmönnum. Fyrir klaufaskap, og góðan varnarleik Íslendinga, misstu gestirnir boltann hvað eftir annað og Arnór og félagar minnkuðu muninn niður í eitt mark. 

„Við vorum klókir, náðum að vinna boltann nokkrum sinnum og komum okkur aftur inn í leikinn sem var mjög mikilvægt. Það er hætt við því að leikurinn hefði þróast öðruvísi hefðum við verið fimm eða sex mörkum undir í hálfleik.“

Arnór Þór ber fyrirliðabandið á HM vegna þess að Aron Pálmarsson er meiddur og fjarri góðu gamni. Arnór segir það vitaskuld mikla blóðtöku. „Fólk verður að átta sig á því að Aron er einn besti handboltamaður í heiminum. Það er því ekkert grín að missa hann; það yrði ekki auðvelt fyrir Norðmenn að missa [Sander] Sagosen, svo ég nefni dæmi. En við erum auðvitað staðráðnir í því að spila vel, við munum greina alla leikina vel, skoða upptökur vandlega og mæta vel undirbúnir í hvern einasta leik.“

Arnór telur afar mikilvægt að hugsa bara um næsta leik. „Það er lang best, það hefur oft komið mönnum í vandræði ef þeir hugsa of langt fram í tímann; ég vil alls ekki velta fyrir mér liðum sem við mætum síðar – nú er einbeitingin alfarið á Portúgal,“ sagði Arnór og viðurkenndi að hann vissi hreinlega ekki hvort Ísland mætti Alsír eða Marokkó næst, að loknum slagnum við Portúgal. Rétt er að fram komi að það eru Alsíringar og þriðji og síðasti leikur liðsins í riðlinum er gegn Marokkó.

Fyrirliðinn á von á því að leikur kvöldsins verði að mörgu leyti svipaður hinum leikjunum tveimur gegn Portúgal á síðustu dögum.

„Þeir eru með hörkulið og eru ótrúlega klókir í sínum aðgerðum. Við verðum að vera mjög aggressívir á móti þeim, hvort sem er í vörn eða sókn; þegar þeir mæta okkur framarlega þurfum við að láta boltann ganga hratt á milli manna til þess að búa til svæði þar sem við erum fleiri en þeir og komast í færi.“

Allir í hópnum eru leikfærir. Arnór sagði Alexander Petersson hafa liðið illa fyrstu dagana eftir höfuðhögg í síðasta leik en hann vissi ekki betur en allt væri á réttri leið.

En hvernig skyldi Arnóri Þór líða sem fyrirliða? 

„Ég verð að viðurkenna að eftir að Gummi [Guðmundur Guðmundsson þjálfari] talaði við mig fyrst um að taka hlutverkið að mér leið mér óvenjulega. Fyrir fyrsta leikinn fékk ég svo góðan hnút í magann! Ég skal vera alveg heiðarlegur með það. Í seinni leiknum á móti Portúgal var auðveldara að fást við þetta enda einbeitti ég mér að því að hjálpa liðinu eins vel og ég gat, hvort sem var inni á vellinum eða af bekknum, eins og ég er vanur. Ég tala við strákana og reyni að peppa þá upp, sem mér fannst ganga vel, og held reyndar að ég geti sagt að mér gekk vel í leikjunum tveimur sem búnir eru. Og ég vil taka það fram að það er mér mikill heiður að vera fyrirliði – ég er mög stoltur og skynja líka að allir í fjölskyldunni eru það.“

Talandi um fjölskylduna. Aron Einar, litli bróðir, – sem er einu ári yngri en Arnór – hefur verið fyrirliði landsliðsins í fótbolta síðustu ár. Gaf hann kannski einhver góð ráð?

„Nei, ekki beint. En hann sendi mér reyndar skilaboð og sagði mér að hugsa ekki of mikið um þetta; ég yrði að einbeita mér að því að vera sami leikmaður og hingað til; yrði að einbeita mér algjörlega að leiknum, það skipti mjög miklu máli.“

Fyrirliðinn segir mjög mikilvægt að vinna Portúgal í fyrsta leik. „Það er mjög mikilvægt að fá tvö stig á móti þeim, en svo er fyrsti leikur líka alltaf sérstakur og þá skiptir eiginlega engu máli hvort það er HM, EM, þýska deildin eða Íslandsmótið,“ segir hann.

„Það er alltaf sérstök tilfinning að byrja, maður er aldrei alveg viss hvernig spennustigið er, það þarf alltaf að finna ákveðið jafnvægi. Svo er auðvitað sérstakt að fyrsti leikur á HM sé þriðji leikurinn í röð við sama liðið. Mjög sérstök tilfinning; þetta er bara eins og þegar maður var að spila í úrslitakeppninni heima á Íslandi 2010!“

Seinni tveir leikir Íslands í riðlinum:

  • Laugardag 16. janúar: Ísland – Alsír klukkan 19.30
  • Mánudagur 18. janúar: Ísland – Marokkó klukkan 19.30