Fara í efni
Íþróttir

Mjög mikilvægt að mega æfa á ný

Mjög mikilvægt að mega æfa á ný

Þjálfarar meistaraflokksliða bæjarins í boltaíþróttum gleðjast mjög vegna nýrra reglna sem taka gildi á morgun. Eftir langt hlé vegna kórónuveirufaraldursins, mega liðin hefja æfingar á ný, þó einungis þau sem spila í efstu deild. Það á við um handboltalið KA og Þórs í karlaflokki, lið KA/Þórs í kvennaflokki, körfuboltalið Þórs og blaklið beggja kynja hjá KA. Í venjulegu árferði  hefðu öll þessi verið á fullu við æfingar og keppni síðustu vikur.

Meistaraflokkur kvenna í fótbolta, Þór/KA, mætti hefja æfingar á ný sem og meistaraflokkur KA en ekki Þórsarar, þar sem þeir leika í næst efstu deild. Margir innan íþróttahreyfingarinnar undruðust þann hluta reglnanna í gær. Akureyri.net ræddi við nokkra þjálfara sem lýstu allir yfir mikilli ánægju með ákvörðun yfirvalda, en eru samt áhyggjufullir vegna ákveðinna þátta.

Miklar áhyggjur af brottfalli

„Það er fyrst og fremst mikill léttir að fá að fara að æfa. Tímabilið er í miklu uppnámi og eflaust verður spilað með breyttu fyrirkomulagi,“ segir Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórsliðsins í körfubolta. Einungis einn leikur er búinn í deildinni og Bjarki Ármann tók við stjórn liðsins að honum loknum. Hann hefur enn ekki stýrt liðinu í leik.

Þrátt fyrir að gleðjast að segir Páll það hinsvegar vonbrigði að 16 til 20 ára fái ekki að hefja æfingar. „Við þjálfarar höfum mikla áhyggjur af brottfalli á því aldursbili,“ segir hann.

„Körfuboltaþjálfarar hafa í nokkrar vikur viljað fá að komast inn í risastóra salina með til dæmis 5 eða 6 iðkendur í einu til að fá að skjóta í körfu og gera æfinga. Þar sem allir gæti haldið góðu bili og rúmlega það. En nú leyfir ráðherra okkur að æfa með snertingu. Ég hefði óneitanlega viljað fara einhverja mýkri leið fyrr svo leikmenn væru betur undirbúnir nú þegar æfingar mega hefjast að fullu.“

Hann segir alla spennta að sjá hvernig nýtt skipulag Íslandsmótsins verður. „Líklegast verður bæði spilað þétt og lengra inn í sumarið en venjulega. En eins og ég sagði er mikill léttir að fá byrja að æfa. Það glittir í bóluefni og vonandi verður þessi hörmungar vírus minningin ein innan skamms,“ segir Bjarki Ármann.

Mikið gleðiefni

„Það er óneitanlega gleðiefni að meistaraflokkurinn má loksins fá að æfa og erum við mjög þakklátir fyrir það. Drengirnir hafa núna í þessu „banni“ þrátt fyrir allt verið afar agaðir og farið eftir því plani sem við þjálfarnir létum þeim í té. Egill styrktarþjálfari hefur unnið gríðarlega góða vinnu við að halda mönnum við efnið,“ Jónatan Magnússon, þjálfari karlaliðs KA í handbolta.

„Augljóslega er þó ekki hægt að bera saman það sem við megum frá og með fimmtudegi, við það sem við viljum vera að gera, en við erum mjög glaðir að fá að æfa. Við munum því nota næstu vikur mjög vel og ég er viss um að það verður auðvelt að mótivera menn, þrátt fyrir að fyrirsjánlegt sé að það er langt í næsta mótsleik. Það er langt síðan að hópurinn hittist svo við hlökkum mikið til að endurnýja góðan félagsskap á fimmtudaginn,“ segir Jónatan.

Skiptir gríðarlegu máli

„Það er gríðarlega mikilvægt að fá að æfa aftur. Þótt bara verði æft en ekki keppt strax skiptir mjög miklu máli að hittast og halda mönnum á tánum. En við þurfum að fara rólega af stað eftir svona langan tíma án bolta,“ segir Halldór Örn Tryggvason, annar þjálfara karlaliðs Þórs í handbolta.

Þórsarar hafa ekki æft í rúmar sex vikur frekar en aðrir íþróttahópar en áður höfðu þeir tvisvar þurft að gera nokkurra daga hlé á æfingum vegna smits tengdum leikmannahópnum.

Strákarnir hafa verið með æfingaáætlun frá Kristni Ingólfssyni styrktarþjálfara „en það er samt aldrei eins og að hittast á æfingum og taka vel á því. Það er alltaf hætta á að menn slaki ósjálfrátt á þegar enginn er að atast í þeim, þannig að það er mjög mikilvægt að mega hittast á ný,“ segir Halldór.

EM hefur ýtt undir tilhlökkun

Andri Snær Stefánsson, þjálfari kvennaliðs KA/Þórs í handbolta, gleðst ekki síður en starfsbræður hans.

„Það er frábært að fá að fara aftur af stað með handboltaæfingar hjá liðinu okkar í KA/Þór. Stelpurnar hafa undanfarnar vikur verið í fjarþjálfun og ég verð að hrósa þeim fyrir að hafa skilað af sér æfingaplaninu. Egill Ármann Kristinsson styrktarþjálfari hefur stjórnað fjarþjálfuninni og unnið frábært starf. Nú fáum við að uppskera, förum á fullt í handbolta á nýjan leik,“ segir Andri Snær.

„Ég sjálfur er mjög spenntur að fara aftur af stað, nú tekur við vinna við að koma liðinu aftur í handboltaform og það verður skemmtilegt ferli. Leikmenn og þjálfarar eru að fylgjast með EM kvenna þessa dagana sem ýtir enn frekar undir tilhlökkun að komast í handbolta!

Ég reikna með að Olís deild kvenna fari aftur af stað snemma í janúar þannig að við notum næstu vikur í að slípa okkur saman. Við ætlum að vera tilbúin í slaginn þegar deildin fer aftur af stað.“