Fara í efni
Íþróttir

Mjög góður leikur gegn Kiel miðað við aðstæður

Arnór Þór Gunnarsson var frábær gegn meisturum Kiel og valinn í lið umferðarinnar.

Arnór Þór Gunnarsson var valinn í lið umferðarinnar í þýska handboltanum, eins og fram koma á Akureyri.net í gær, eftir frábæra frammistöðu gegn Kiel á útivelli. Bergischer tapaði að vísu 33:30 fyrir stórliðinu en Arnór gerði átta mörk, þar af fjögur af vítalínunni.

„Það má segja að þetta hafi verið mjög góður leikur hjá okkur, miðað við allt; við vorum í hörku leik til enda við meistarana í Kiel,“ sagði Arnór Þór við Akureyri.net. „Við fórum allir í 14 daga sóttkví og fjórir leikmenn greindust með veiruna hjá okkur. Þeir voru, og eru reyndar enn að jafna sig, þannig að þeir komu ekki með í þessa tvo leiki,“ sagði hann. Þetta var fyrsti leikur liðsins eftir sóttkvína. Bergischer lék í Kiel síðasta fimmtudag og á sunnudaginn mættu Arnór og félagar svo Flensburg, einnig á útivelli.

„Við gistum í Kiel fram að leiknum við Flensburg, því aðeins þrír dagar voru á milli leikja. Það verður að viðurkennast að sá leikur var ekki nógu góður hjá okkur, enda höfðu menn gefið mikið í leikinn við Kiel. Eftir 14 daga sóttkví og án fjögurra mikilvægra leikmanna vorum við nánast orðnir bensínlausir.“

Flensburg, sem er á toppi deildarinnar, sigraði í leiknum 29:22. Kiel er í öðru sæti, aðeins einu stigi á eftir nágrönnunum í Flensburg. Bergischer er í áttunda sæti deildarinnar.

Oddur Gretarsson og samherjar hans í Balingen – Weilstetten fengu meistara Kiel í heimsókn á sunnudaginn, og töpuðu stórt, 33:22. Oddur lék þó vel og gerði fjögur mörk. Lið er í 16. sæti, einu frá fallsæti.