Fara í efni
Íþróttir

Mjög á brattann að sækja hjá meisturunum

Jakob Jóhannesson markvörður SA einbeittur á svip á svellinu í kvöld. Hann lék mjög vel; hélt liðinu hreinlega á floti á tímabili. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Íslands- og deildarmeistarar Skautafélags Akureyrar voru skotnir hressilega niður á jörðina í kvöld í fyrsta úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí. Leikmenn Skautafélags Reykjavíkur gerðu sér lítið fyrir og sigruðu SA Víkinga 7:3 í Skautahöllinni á Akureyri.

Strákarnir okkar í SA byrjuðu reyndar vel en svo tóku gestirnir smám saman völdin. Akureyringarnir voru ekki sjálfum sér líkir á alltof löngum köflum, náðu reyndar að hrista vel af sér slenið framan af þriðja leikhluta en það dugði þó ekki til. Í lokin freistuðu Akureyringar þess að brjóta SR-inga á bak aftur með fleiri sóknarmönnum en venjulega og tóku Jakob markmann af velli en það gekk ekki upp og gestirnir skoruðu tvívegis í tómt markið.

Mörkin:

  • 1:0 Halldór Skúlason (12:23)
  • 1:1 Jonathan Outma (15:35)
  • 2:1 Unnar Rúnarsson (16:26)
  • 2:2 Bjarki Jóhannesson (18:44)
    _ _ _
  • 2:3 Kári Arnarsson (28:04)
    _ _ _
  • 2:4 Þorgils  Eggertsson (41:44)
  • 2:5 Níels Hafsteinsson (48:16)
  • 3:5 Hafþór Sigrúnarson (48:47)
  • 3:6 Kári Arnarsson (58:22)
  • 3:7 Styrmir Maack (58:43)

SR-ingar komu fullir sjálfstrausts til leiks og sigur þeirra var sanngjarn. Markvörður þeirra, Atli Valdimarsson, var frábær í kvöld og kom í veg fyrir að heimamenn næðu að ógna sigrinum af alvöru þegar þeir bitu í skjaldarrendur í lokahlutanum.

Næsti úrslitaleikur verður á heimavelli SR í Skautahöllinni í Laugardal á fimmtudaginn kl. 19.45. Þriðji leikurinn verður svo á Akureyri næstkomandi sunnudag kl. 16.45.

Þrjá sigra þarf til að verða Íslandsmeistari. Liðin þurfa því vonandi að leika oftar en þrisvar! 
 
  • 4. leikur – þriðjudag 28. mars í Reykjavík
  • 5. leikur – fimmtudag 30. mars á Akureyri

Reykvíkingar fagna einu sjö marka sinna í kvöld.

Akureyringurinn Orri Blöndal, til vinstri, og Níels Hafsteinsson á svellinu í kvöld. Andri Mikaelsson í fjarska.

Atli Sveinsson skýtur að marki SR seint í leiknum en Ævar Arngrímsson komst fyrir pökkinn.