Fara í efni
Íþróttir

Mikilvæg stig Odds og félaga í botnbaráttu

Arnór Þór Gunnarsson og Oddur Gretarsson á HM í Egyptalandi í janúar. Ljósmynd: Ívar Benediktsson.

Oddur Gretarsson og samherjar í Balingen-Weilstetten nældu í gríðarlega mikilvæg tvö stig í botnbaráttu þýsku 1. deildarinnar í handbolta í gærkvöldi, þegar þeir sigruðu Nordhorn-Lingen mjög örugglega, 35:24, á heimavelli.

Fjögur neðstu liðin falla og er Nordhorn-Lingen í fjórða neðsta sæti en Oddur og félagar næsta lið þar fyrir ofan. Fyrir leikinn munaði einungis einu stigi á liðunum en nú þremur.

„Við litum á leikinn sem þann mikilvægasta á tímabilinu fram til þessa og mættum virkilega gíraðir í leikinn með hátt sjálfstraust frá síðasta leik,“ sagði Oddur við handbolta.is í gærkvöldi. Hann gerði fjögur mörk í leiknum, þar af þrjú af vítalínunni.

Frestað vegna kórónuveiru

Arnór Þór Gunnarsson og félagar í Bergischer unnu Erlangen á útivelli í síðasta leik, 25:20, þar sem Arnór gerði fimm mörk. Liðið er í sjötta sæti deildarinnar og átti að mæta tveimur Íslendingaliðum næst; fyrst lærisveinum Guðmundar Guðmundssonar landsliðsþjálfara í Melsungen á sunnudaginn og síðan var Þórsslagurinn við Odd og hans menn í Balingen framundan í næstu. Báðum þessum leikjum hefur hins vegar verið frestað eftir að kórónuveiran stakk sér niður í herbúðum Bergischer.

Smelltu hér til að fara á handbolti.is