Fara í efni
Íþróttir

Hiti í mönnum í kuldanum - MYNDIR

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Karlalið Skautafélags Akureyrar, SA Víkingar, tóku á móti Fjölnismönnum föstudag og laugardag; SA vann fyrri leikinn örugglega, 8:2, en Fjölnir snéri dæminu við og vann seinni leikinn 4:2. Það var fyrst tap SA í Hertz-deild Íslandsmótsins, liðið hafði unnið fyrstu fimm leikina. 

Íshokkí stendur á gömlum merg í höfuðstað Norðurlands, Skautafélag Akureyri hefur verið gríðarlega sigursælt í gegnum tíðina og virðist með besta liðið nú eins og oft áður, þrátt fyrir tapið í gær. Þá hefur kvennalið SA mikla yfirburði sem endranær.

Full ástæða er til þess að hvetja bæjarbúa til að mæta á leiki liðanna í vetur því íshokkí er stórskemmtileg íþrótt, án efa eru margir sem gera sér ekki grein fyrir því en hefðu örugglega mikla skemmtan af því að fylgjast með þeirri hörkubaráttu sem jafnan fer fram á svellinu. Gjarnan er mikill í mönnum í kuldanum!

Fjölnismenn leika í búningum merktum Birninum, sem á sér eðlilegar skýringar. Björninn sameinaðist Fjölni fyrir nokkrum misserum, sameinað lið lék fyrst sem Björninn/Fjölnir en nú er Fjölnisnafnið notað eingöngu.

Skapti Hallgrímsson brá sér á báða leiki SA og Fjölnis og hér má sjá hluta þeirra ljósmynda sem urðu til við þau tækifæri.