Fara í efni
Íþróttir

Mikil vonbrigði er KA tapaði fyrir HK

Skarphéðinn Ívar Einarsson gerir eitt af sjö mörkum sínum gegn HK í kvöld. Þarna þrumaði hann utan af velli yfir Daða Jónsson samherja sinn og Sigurð Jefferson Guariono. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Slakur fyrri hálfleikur varð KA-mönnum að falli í kvöld þegar þeir fengu lið HK í heimsókn á Íslandsmótinu í handbolta. Gestirnir voru sex mörkum yfir í hálfleik og fögnuðu sigri eftir spennandi lokamínútur, 27:26.

HK var mun betra liðið í fyrri hálfleik og staðan að honum loknum var 16:10. Munurinn varð sjö mörk þegar HK gerði fyrsta mark seinni hálfleiks, KA-menn gerðu hvað þeir gátu til að minnka muninn en náðu ekki að narta í hæla gestanna fyrr en á lokamínútunum, sem urðu æsispennandi.

HK var fimm mörkum yfir, 26:21, þegar átta mín. voru eftir en KA-menn gerðu þá fjögur í röð, Ott Varik það síðasta eftir hraðaupphlaup og staðan var 26:25 þegar tvær og hálf mínúta lifði leiks. HK missti boltann í næstu sókn og áðurnefndur Varik fékk aftur dauðafæri en þá sá markvörður HK við honum. Þá var ein og hálf mín. eftir.

Kristján Ottó Hjálmsson skoraði af línu fyrir HK, 27:25, þegar tæp mínúta var eftir, KA tók leikhlé þegar í stað og að því loknu þýddi ekkert að tvínóna við hlutina: boltinn var sendur á Skarphéðin Ívar Einarsson sem skoraði með þrumuskoti yfir HK-vörnina.

Eftir langa sókn HK-inga var boltinn dæmdur af þeim þegar um 10 sekúndur voru eftir en sá tími dugði KA-mönnum ekki til að jafna. Brotið var á Einari Rafni Eiðssyni þegar hann reyndi að brjótast í gegn í þann mund sem leiktíminn rann út og dæmt var aukakast nálægt hliðarlínunni. HK-ingar röðuðu sér upp í varnarvegg, Einar skaut en hafði ekki erindi sem erfiði enda færið sennilega vonlaust. Að vísu hefur einu sinni verið skorað úr nánast nákvæmlega eins færi í KA-heimilinu, en galdrar eins og Guðjón Valur Sigurðsson bauð upp á vorið 2001 eru ekki daglegt brauð.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina

Kristján Ottó Hjálmsson gerir sigurmarkið í kvöld; 27. mark HK, þegar tæp mínúta var eftir. Hann laumaði boltanum í nærhornið framhjá Nicolai Horntvedt Kristensen. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson