Fara í efni
Íþróttir

„Markmiðið var að slá metið í sumar“

Hallgrímur Mar Steingrímsson fagnar seinna markinu gegn Keflavík á dögunum með tilþrifum. Enda var h…
Hallgrímur Mar Steingrímsson fagnar seinna markinu gegn Keflavík á dögunum með tilþrifum. Enda var hann orðinn markahæsti leikmaður KA frá upphafi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Hallgrímur Mar Steingrímsson varð á dögunum markahæsti knattspyrnumaður í sögu KA, þegar hann gerði sigurmarkið, 2:1, gegn Keflavík. Hallgrímur gerði bæði mörk liðsins í leiknum og hefur þar með gert 74 mörk fyrir KA. Hreinn Hringsson var efstur á lista yfir markaskorara félagsins með 73 mörk.

„Ég verð að viðurkenna að ég var búinn að hugsa um þetta met. Ég vissi að stutt væri í það og að sjálfsögðu var markmiðið að slá metið í sumar. Það er ekki eins og KA sé eitthvert lítið félag, og ég er mjög stoltur af þessu,“ sagði Hallgrímur Mar við Akureyri.net.

Seinna mark Hallgríms í sigurleiknum gegn Keflavík var það 34. sem hann gerir fyrir KA í efstu deild Íslandsmótins. Hann hefur gert 31 mark í næst efstu deild og níu í bikarkeppninni. Þess má og geta að Hallgrímur hefur gert fjögur mörk fyrir Víking í efstu deild Íslandsmótsins.

Hallgrímur og félagar verð í eldlínunni í dag, þegar þeir mæta Keflvíkingum aftur, nú í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar í Reykjanesbæ. 

  • Hallgrímur skoraði fyrst fyrir KA 17. maí 2010, í 2:0 sigri á Draupni í bikarkeppninni. Leikið var í Boganum. Hitt mark KA gerði Haukur Heiðar Hauksson og í liðinu var líka Andri Fannar Stefánsson, sem báðir eru aftur komnir í herbúðir KA.
  • „Ég man vel eftir þessum leik. Við vorum í grænum, fallegum varabúningi – mér líður alltaf vel í grænu!“ segir Hallgrímur, þegar hann rifjar upp Draupnisleikinn. Hann hóf ferilinn í hinum græna búningi Völsungs á Húsavík.
  • Fyrsta markið fyrir KA á Íslandsmótinu gerði Hallgrímur í 3:3 jafntefli gegn HK í B-deildinni 5. júní 2010. Leikurinn fór fram á Þórsvellinum og mikil dramatík einkenndi síðustu mínúturnar. HK komst í 3:2 á 86. mín. en Hallgrímur jafnaði á 90. mínútu!
  • Hallgrímur gerði tvö mörk gegn HK. „Þetta voru fyrstu alvöru mörkin mín fyrir KA. Markið í lokin var svo sem ekkert sérstakt; ég fékk sendingu frá hlið inn í miðjan teig og skoraði. Markið var bara svo mikilvægt að ég man að ég hljóp alveg trylltur í fangið á Dino.“ Þar á hann við Dean Martin, sem þjálfaði KA á þessum tíma.
  • Hallgrímur skoraði í fyrsta skipti í efstu deild sumarið 2015 þegar hann lék með Víkingi í Reykjavík. Hann gerði þá tvö mörk í 7:2 sigri á Keflvíkingum 19. júlí.
  • Fyrsta markið fyrir KA í efstu deild gerði Hallgrímur á Kaplakrikavelli 8. maí 2017. Hann kom KA í 1:0 með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu. FH komst yfir í leiknum en Ásgeir Sigurgeirsson jafnaði þegar nokkrar sekúndur voru eftir af fjögurra mínútna uppbótartíma – með skalla eftir hornspyrnu Hallgríms.
  • Þegar Hallgrímur skoraði í fyrsta skipti fyrir KA á heimavelli í efstu deild gerði hann þrjú mörk! Það var 16. júlí 2017 þegar KA vann ÍBV 6:3. Gestirnir voru komnir í 2:0 eftir kortér en Hallgrímur minnkaði muninn með skoti úr miðjum vítateignum og kom KA í 3:2 á 45. mínútu úr víti. Hann náði þrennunni með sjötta marki KA í leiknum, breytti stöðunni þá í 6:2. „Ég gerði þriðja markið með skalla – eitthvað sem ég er nú ekki þekktur fyrir!“ segir hann og hlær.
  • Markakóngurinn fagnaði sigumarkinu gegn Keflavík um daginn – metmarkinu – með tilþrifum. „Það var nú ekki bara vegna þess að ég var búinn að slá metið sem ég reif mig út treyjunni! Líka þess vegna þess að þetta var mjög mikilvægur sigur fyrir okkur,“ sagði Hallgrímur, sem hljóp út að hlíðarlínunni, henti sér niður á hnén og renndi sér í átt að áhorfendum. Stóð síðan upp og hneigði sig fyrir þeim.

Fróðlegt verður að sjá hvort Hallgrími tekst að skora í dag – þótt leikurinn sé í bikarkeppninni – í ljósi þess að fyrsta mark hans í efstu deild var gegn liði Keflavíkur og metmarkið einnig.

Leikurinn hefst klukkan 17.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Hallgrímur Mar og Ásgeir Sigurgeirsson fagnað marki þess fyrrnefnda - sigurmarki gegn Grindavík (2:1) í síðustu umferð næst efstu deildar Íslandsmótsins 2016, þegar liðið tryggði sér sæti í efstu deild á ný eftir langa fjarveru. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Hallgrímur fagnar einu af 74 mörkum sínum fyrir KA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.