Fara í efni
Íþróttir

Markmiðið að verða Íslandsmeistarar

Rut Jónsdóttir, lengst til hægri, markvörðurinn Matea Lonac og Martha Hermannsdóttir, eftir að KA/Þór varð deildarmeistari í gær. Ljósmynd: JGK

„Markmiðið er að sjálfsögðu að liðið verði Íslandsmeistari,“ sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir, hinn margreyndi og frábæri leikmaður handboltaliðs KA/Þórs, við Akureyri.net eftir að liðið varð deildarmeistari í gær, með því að gera jafntefli við Fram í Reykjavík í síðustu umferðinni.

Akureyrarliðið náði sér ekki á strik í fyrri hálfleik og var fimm mörkum undir eftir fyrri 30 mínúturnar, 17:12.

„Mér fannst ekkert óþarfa stress í mannskapnum. Það var auðvitað of mikið að fá 17 mörk á okkur í fyrri hálfleik, en Fram spilaði bara ótrúlega vel,“ sagði Rut.

Hún gekk til liðs við KA/Þór fyrir keppnistímabilið eftir 12 ár sem atvinnumaður með dönskum félagsliðum, síðustu tvö árin með Danmerkurmeisturunum, Team Esbjerg, og hefur reynst frábær liðsauki. Hún segist hæstánægð á Akureyri, þar sem hún stundar nám í sálfræði við HA og maður hennar, Ólafur Gústafsson, spilar með handboltaliði KA. „Já, ég er ótrúlega ánægð með að hafa komið norður. Það hefur verið dásamlegt hér,“ segir hún.

Frábær karakter

„Leikurinn er 60 mínútur og við vorum búin að ræða mikið um að fimm mörk er ekki mikill munur í handboltaleik. Ég er ótrúlega ánægð með hve vel við náðum að nýta hálfleikinn til þess að ræða málin; við vissum að möguleikinn væri enn til staðar, fórum yfir ákveðin atriði sem við vildum laga og mér finnst það sýna frábæran karakter liðsins að koma svona vel út í seinni hálfleikinn. Þá small allt vel, vörnin varð miklu betri, þá kom meiri markvarsla og við fengum mörk eftir hraðaupphlaup sem er alltaf mikilvægt.“

Rut segir einkennandi fyrir liðið að leikmenn hafi tröllatrú á hópnum og verkefninu. „Það er alveg sama hvað gerist, við missum aldrei trúna á liðinu eða hver annarri, sem er stórkostlegt.“

Góð tilfinning

Augnablikið þegar leiktíminn rann út í gær – og titillinn var þar með í höfn – var yndislegt, segir Rut. „Það var mjög gaman og tilfinningin ótrúlega góð. Maður er  meðal annars í íþróttum fyrir tilfinninguna sem maður fær eftir svona leiki. Svo var auðvitað magnað hve margir tóku á móti okkur á flugvellinum þegar við komum norður, það gaf mér mikið og gerði daginn enn dásamlegri.“

Hún segir aðspurð að líklega hafi velgengni KA/Þórs í vetur komið henni örlítið á óvart, „en þær eru samt svo ótrúlegar, stelpurnar í liðinu, og það býr mikið i þeim. Þær geta orðið ennþá betri. Mér finnst hlutirnir hafa smollið vel hjá okkur í vetur, liðið er góð blanda af ungum og efnilegum stelpum og svo eldri og reyndari. Það er mjög gaman að vera hluti af þessu liði.“

Markmiðið er skýrt, eins og fram kom í upphafi. KA/Þór stefnir vitaskuld að því að verða Íslandsmeistari. „Við höfum sýnt í allan vetur að við eigum fullt erindi í baráttuna og sigur eins og þessi gefur liðinu enn meira sjálfstraust en áður. Það var mikilvægt að vinna þennan titil upp á sjálfstraustið,“ sagði Rut.