Fara í efni
Íþróttir

Mark í framlengingu og sigur í lokaleik SA

Sigurreifir SA Víkingar að loknum æsispennandi leik og sigri í framlengingu gegn eistneska liðinu Narva PSK. Mynd: SA.

SA Víkingar unnu glæsilegan sigur, 5-4, gegn eistneska liðinu Narva PSK, í lokaleik sínum Continental Cup sem fram fór í Vilnius í Litháen í dag og lýkur keppni í 3. sæti riðilsins. Áður hafði liðið tapað fyrir sterkum liðum frá Litháen og Lettlandi.

Mótið var þétt spilað. Frá því að SA Víkingar hófu leik kl. 17 að íslenskum tíma á föstudag þar til þeir luku sínum þriðja leik í dag eru innan við 43 klukkustundir, sem sagt þrír leikir á innan við tveimur sólarhringum. Frammistaða liðsins var frábær því eins og áður hefur komið fram í umfjöllun akureyri.net færðist liðið upp um styrkleikariðil eftir að lið hafði dregið sig úr keppni. Andstæðingarnir voru því sterkir, en SA Víkingar börðust af krafti í öllum leikjunum og uppskáru sigur í lokaleiknum í dag eftir markaveislu í þriðju lotu og gullmark Jóhanns Más Leifssonar í framlengingu. 

Föstudagur: Tap gegn heimamönnum

SA Víkingar börðust vel gegn sterku liði heimamanna í Hockey Punks Vilnius í fyrsta leik sínum á föstudag. Segja má að lokatölur leiksins, 6-1 heimamönnum í vil, gefi ekki fullkomna mynd af leiknum sjálfum því til að mynda áttu okkar menn 25 skot á markið, en heimamenn aðeins tíu fleiri, 35 skot. Baráttan var að minnsta kosti til staðar og aldrei nein uppgjöf í leik SA Víkinga.

  • Hockey Punks Vilnius - SA 6-1 (2-0, 2-0, 2-1)

Heimamenn skoruðu tvö mörk í fyrstu og tvö í annarri lotu, en strax á upphafsmínútum þeirrar þriðju skoraði Atli Sveinsson eina mark SA eftir stoðsendingar frá Jóhanni Má Leifssyni og Unnari Hafberg Rúnarssyni. Atli var síðan valinn besti maður SA í leiknum. Hinum leik fyrstu umferðarinnar lauk með 13-1 sigri Mogo Riga frá Lettlandi gegn Narva PSK frá Eistlandi. 

Atli Sveinsson fagnar Íslandsmeistaratitlinum síðastliðið vor ásamt Unnari Hafberg Rúnarssyni og fleiri liðsfélögum. Atli ökklabrotnaði í næstsíðasta leik úrslitarimmunnar í vor, en er mættur á svellið og skoraði fyrstu þrjú mörk SA Víkinga í mótinu í Litháen. Mynd: Rakel Hinriksdóttir. 

Laugardagur: Atli skoraði tvö í tapi

Þrátt fyrir stutta hvíld á milli leikja var engan bilbug að finna á SA Víkingum í leik gegn sterku liði Mogo Riga frá Lettlandi. Fyrsti leikur liðsins hófst kl. 17 að íslenskum tíma á föstudegi og strax kl. 11 á laugardagsmorgni hófst næsti leikur. 

  • Mogo Riga - SA 7-2  (3-0, 3-1, 1-1)

SA Víkingar lentu 0-3 undir í fyrstu lotunni, en snemma í annarri lotu minnkaði Atli Sveinsson muninn í 1-3 með sínu öðru marki í mótinu, eftir stoðsendingar Baltasars Hjálmarssonar og Jóhanns Más Leifssonar. Lettarnir svöruðu með þremur mörkum í annarri lotunni og komust í 7-1 með marki í þeirri þriðju, en Atli Sveinsson minnkaði muninn í 7-2 með sínu þriðja marki í mótinu eftir stoðsendingar Heiðars Gauta Jóhannssonar og Unnars Hafbergs Rúnarssonar. Jóhann Már var síðan valinn besti maður SA Víkinga í leiknum . 

Baltasar Hjálmarsson og Jóhann Már Leifsson fagna marki í úrslitarimmunni við SR í vor. Jóhann Már var valinn besti leikmaður SA Víkinga í öðrum leik liðsins í Litháen. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.

Sunnudagur: sigur í æsispennadi lokaleik

Þriðji og síðasti leikur SA Víkinga var gegn eistneska liðinu Narva PSK, sem tapaði hafði báðum leikjum sínum til þessa, eins og Akureyringar. Narva PSK tapaði 1-13 fyrir Mogo Riga og 5-8 á móti Hockey Punks Vilnius. 

Narva PSK náði forystunni með marki í fyrstu lotunni, en Unnar Hafberg Rúnarsson jafnaði í upphafi annarrar lotu eftir stoðsendingar Atla Sveinssonar og Heiðars Gauta Jóhannssonar. SA Víkingar voru þá manni fleiri á svellinu, eftir að leikmaður Narva fékk refsingu í lok fyrstu lotunnar. Unnar fékk pökkinn fyrir utan og átti fast skot sem sigldi framhjá varnarmönnum og markverði eistneska liðsins.

Náðu forystu tveimur færri

Næstu mínútur eftir jöfnunarmarkið urðu viðburðaríkar. SA Víkingar voru manni færri eftir að Heiðar Gauti Jóhannsson hafði fengið tveggja mínútna refsingu. Ingvar Þór Jónsson fékk þá stuttu síðar einnig refsingu fyrir brot og útilokun úr leiknum, eftir að dómarar töldu hann hafa farið með kylfuna í klof mótherja, sem virðist þó tæplega rétt mat að sjá af upptöku af leiknum. En því verður ekki breytt og SA Víkingar voru tveimur færri í vel rúma mínútu.

Með þrjá útileikmenn, Orm Jónsson, Unnar Hafberg Rúnarsson og Hank Nagel, ásamt Róberti Steingrímssyni í markinu, tókst SA Víkingum að verjast sóknum andstæðinganna og gott betur því skömmu eftir að Heiðar Gauti lauk sinni refsingu vann hann pökkinn, skautaði fram og skoraði, SA Víkingar komnir með forystu þrátt fyrir liðsmuninn.

Heiðar Gauti Jóhansson kom úr refsiboxinu og skoraði annað mark SA Víkinga í dag. Myndin er úr úrslitarimmu SA og SR síðastliðið vor. Mynd: Rakel Hinriksdóttir. 

Markaveisla í þriðju lotu

Liðin buðu síðan upp á markaveislu í síðustu lotunni. Snemma í lotunni náði Narva PSK að jafna og taka forystuna með tveimur mörkum á innan við mínútu, en sú forysta stóð ekki lengi því Unnar Hafberg Rúnarsson jafnaði í 3-3 innan við mínútu síðar.

Narva PSK náði aftur forystunni þegar tæpar átta mínútur voru eftir, en 26 sekúndum eftir að leikur hófst að nýju jafnaði Aron Ingason í 4-4 með langskoti eftir stoðsendingu Andra Más Mikaelssonar. SA Víkingar voru einum fleiri á svellinu á lokamínútunum og sóttu ákaft, en tókst ekki að skora. Lokatölur eftir þrjár lotur því 4-4 og gripið til framlengingar.

Unnar Hafberg Rúnarsson skoraði tvö mörk í sigri liðsins í dag og var valinn maður leiksins í lokaleik SA Víkinga á Continental Cup. Hér er hann í úrslitarimmunni gegn SR síðastliðið vor. Mynd: Rakel Hinriksdóttir. 

Framlengingin varð æsispennandi, bæði lið með góð tækifæri, en að lokum var það Jóhann Már Leifsson sem skoraði gullmarkið þegar innan við mínúta var eftir af framlengingunni, eftir stoðsendingu Hanks Nagel. Unnar Hafberg Rúnarsson var svo valinn besti maður SA í leiknum og verðlaunaður að leik loknum. Róbert Steingrímsson varði vel í marki SA Víkinga, var með rúmlega 88% markvörslu, 31 skot af 35.

Glæsilegur sigur í lokaleik liðsins í Continental Cup og liðið endar í 3. sæti riðilsins. 

SA - Narva PSK 5-4 (0-1, 2-0, 2-3, 1-0)

Mörk og stoðsendingar SA Víkinga í mótinu:

Atli Sveinsosn 3/1, Unnar Hafberg Rúnarsson 2/2, Heiðar Gauti Jóhannsson 1/2, Aron Ingason 1/0, Jóhann Már Leifsson 1/2, Baltasar Hjálmarsson 0/1, Andri Már Mikaelsson 0/1.