Fara í efni
Íþróttir

Mark á lokamínútu og Þórsarar töpuðu

Aron Ingi Magnússon var nálægt því að skora í stöðunni 0-0 í leiknum í kvöld, og átti sendingu inn fyrir vörn Aftureldingar sem færði Þórsurum næstum því víti. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór mætti Aftureldingu í annarri umferð Lengjudeildar karla í knattspyrnu í kvöld. Leikurinn fór þó ekki fram í Mosfellsbænum heldur á heimavelli Fram í Úlfarsárdal, næsta bæ við, vegna endurnýjunar á vellinum að Varmá. Afturelding skoraði á lokamínútunni og hirti öll stigin.

Þórsarar urðu fyrir áfalli snemma leiks þegar fyrirliðinn, Bjarki Þór Viðarsosn, fór meiddur af velli eftir aðeins 11 mínútna leik. Fyrri hálfleikurinn var almennt frekar bragðdaufur, heimamenn meira með boltann, en ekki mikið um færi. Seinni hálfleikurinn var fjörugri og Aron Ingi Magnússon var nálægt því að koma Þórsurum yfir eftir um tíu mínútna leik í seinni hálfleiknum þegar hann lék laglega á varnarmenn vinstra megin í teignum, en skot hans hafnaði í stönginni.

Víti og svo ekki víti

Þórsarar töldu sig hafa fengið víti þegar nokkrar mínútur voru eftir af leiknum. Aron Ingi sendi þá boltann inn fyrir vörn Aftureldingar á Ingimar Arnar Kristjánsson og virtist eins og hann hafi verið felldur í teignum. Dómarinn flautaði og benti á vítapunktinn. Þórsarar tilbúnir að taka vítið, en hávær mótmæli heimamanna stóðu þó enn og upphófst rekistefna sem endaði með því að dómarinn skipti um skoðun og dæmdi heimamönnum markspyrnu. Örfáum mínútum síðar, á 89. mínútu, kom eina mark leiksins þegar Gunnar Bergmann Sigmarsson skallaði í markið eftir hornspyrnu og tryggði Aftureldingu sigurinn – á heimavelli Fram.

Erfitt er að dæma um áðurnefnt atvik af upptöku af leiknum. Þorlákur Árnason, þjálfari Þórs, sagði í viðtali við fotbolti.net eftir leikinn að leikmenn Aftureldingar hafi snúið við dómnum með mótmælum og nefndi jafnframt að á fundi með formanni dómaranefndar fyrir mót hafi verið lögð áhersla á að mjög hart yrði tekið á mótmælum leikmanna. Hann sagði hins vegar að það hafi verið „fifty-fifty“ hvort rétt væri að dæma víti eða ekki.

Niðurstaðan varð því eins marks tap og Þórsarar með þrjú stig eftir tvo leiki.

Leiskýrslan á vef KSÍ.

Næsti leikur Þórsara er bikarleikur gegn Leikni R. sem fram fer á Þórsvellinum á þriðjudag.