Fara í efni
Íþróttir

María Catharina í sænsku liði vikunnar

María Catharina Ólafsdóttir Gros hélt utan til Hollands og samdi við Fortuna Sittard í lok janúar á þessu ári.

Sænskir miðlar virðast vera að átta sig á að hin akureyrska María Catharina Ólafsdóttir Gros er sænsk að hálfu. Hún hefur núna tvær vikur í röð verið valin í lið vikunnar af Facebook-síðunni Kolla Svenskan, sem fylgist með og fjallar um knattspyrnu kvenna. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skiptið sem hún er valin af þessum miðli í það sem á sænskunni kallast „Veckans Elva“, lið vikunnar skipað 11 leikmönnum. Hún var einnig valin í þennan hóp eftir góða frammistöðu í leik með liði sínu í mars.


Mæðgurnar María Catharina Ólafsdóttir Gros og Anna Catharina Gros eftir leik Þórs/KA gegn Val á útvelli í A-deild Lengjubikarsins 10. mars 2019, fyrsta leik hennar í byrjunarliði í meistaraflokki. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Móðir Maríu Catharinu, Anna Catharina Gros, er sænsk að uppruna, en hefur búið lengi á Akureyri og starfar hér sem sjúkraþjálfari. María Catharina sleit barnsfótboltaskónum hjá yngri flokkum Þórs og spilaði fyrstu meistaraflokksleikina með Þór/KA snemma árs 2018, þá 15 ára. Fjórum árum síðar hélt hún utan til Hollands þar sem hún spilar með Fortuna Sittard. Hún hefur gert það gott í Hollandi og nánast átt fast sæti í byrjunarliðinu frá því fljótlega eftir að hún hélt utan til Hollands í lok janúar á þessu ári. Áður hafði hún verið hjá Celtic í Skotlandi fyrri hluta árs 2022, en kom heim og spilaði síðari hluta tímabilsins 2022 með Þór/KA.

Í fyrra skiptið núna í nóvember sem Kolla Svenskan valdi Maríu í lið vikunnar lagði hún upp eitt af fjórum mörkum Fortuna Sittard í 4-0 sigri á Heerenveen og núna í seinna skiptið skoraði hún tvö mörk í 7-1 sigri liðsins á Telstar.