Fara í efni
Íþróttir

Margrét Árnadóttir til Parma á Ítalíu

Margrét Árnadóttir í leik með Þór/KA sumarið 2022. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Margrét Árnadóttir, knattspyrnukona úr Þór/KA er gengin til liðs við Parma á Ítalíu. Hún skrifaði undir samning fram á vor, með möguleika á framlengingu um eitt ár.

Parma leikur í dag gegn Inter í bikarkeppninni en Margrét er ekki lögleg með félaginu þar sem einhverri pappírsvinnu er ólokið.

Margrét, sem verður 24 ára í apríl, var með í 17 deildarleikjum Þórs/KA síðastliðið sumar og gerði sex mörk. Hún á að alls að baki 89 leiki í efstu deild Íslandsmótsins með liðinu og hefur gert 20 mörk.

Parma er í neðsta sæti efstu deildar á Ítalíu með sex stig að 12 umferðum loknum. Liðið hefur unnið einn leik, gert þrjú jafntefli og tapað átta. Parma hefur gert 11 mörk í leikjunum 12 en fengið á sig 33. Forráðamenn liðsins hafa unnið að því að styrkja hópinn og í vikunni hafa þeir  fengið tvo leikmenn að láni frá Juventus, framherja og varnarmann.

Roma er efst í deildinni með 30 stig en Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur hennar í Juventus eru í öðru sæti með 27 stig.

Sex leikir eru eftir af hefðbundnum fyrri hluta deildarkeppninnar, þar sem öll lið mætast í tvígang, heima og að heiman. Að því loknu leika fimm efstu liðin áfram um meistaratitilinn og sæti í Evrópukeppni en fimm þau neðri berjast um að forðast fall.

Keppni hefst að nýju í ítölsku kvennadeildinni sunnudaginn 15. janúar að loknu vetrarfríi. Þá mætir Parma liði Milan á útivelli.

  • Parma er 190 þúsund manna borg í norðurhluta landsins, um það bil miðja vegu á milli Mílanó og Bologna. 

Margrét fagnar innilega eftir að hún skoraði í sigri á Keflavíkingum í Bestu deildinni síðastliðið sumar. Sandra María Jessen til vinstri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson