Fara í efni
Íþróttir

Lykilleikmenn framlengja hjá Þór

Eva Wium Elíasdóttir og Heiða Hlín Björnsdóttir undirrita samninga við Þór í dag ásamt Daníel Andra Halldórssyni, þjálfara kvennaliðs Þórs í körfubolta. Myndir: Páll Jóhannesson - thorsport.is

Körfuknattleiksdeild Þórs hugar nú að leikmannamálum fyrir átökin í Subway-deild kvenna á næsta tímabili, en Þórsliðið tryggði sér sem kunnugt er sæti í efstu deild með því að enda í 2. sæti 1. deildarinnar í vetur, eftir lokaeinvígi við lið Stjörnunnar. 

Í dag skrifuðu tveir lykilleikmenn liðsins undir samninga við félagið til eins árs og verða áfram í herbúðum Þórs. Þetta eru þær Heiða Hlín Björnsdóttir fyrirliði og Eva Wium Elíasdóttir. Von er á fleiri fréttum úr herbúðum Þórs eftir því sem Akureyri.net kemst næst.

Nánar er fjallað um undirskriftirnar á heimasíðu Þórs þar sem þessar upplýsingar er að finna um Heiðu Hlín og Evu.

Heiða Hlín Björnsdóttir (1997) er bakvörður/framherji og fyrirliði Þórsliðsins. Hún var valin körfuknattleikskona Þórs í fyrra. Heiða spilaði að meðaltali tæpar 30 mínútur í leik á liðnu tímabili þegar Þórsliðið tryggði sér sæti í efstu deild. Hún skoraði að meðaltali 11 stig í leik, tók 4,3 fráköst, átti 1,8 stoðsendingar og með 8,1 framlagspunkt að meðaltali í leik.

Heiða Hlín á að baki mörg ár í meistaraflokki, kom fyrst við sögu 2011 og má því segja að hún sé að hefja sitt 14. tímabil í meistaraflokki þó leikirnir hafi ekki verið margir 2011 og 2012. Hún hefur spilað lengst af með Þór, en einnig Snæfelli og Fjölni, og er eini leikmaður Þórsliðsins með reynslu af því að spila í efstu deild. Hún á að baki 214 leiki í meistaraflokki, þar af 139 leiki með Þór.

Eva Wium Elíasdóttir (2004) er bakvörður og leikstjórnandi, og ein af allra efnilegustu körfuboltakonum í þeirri stöðu á landinu. Hún hefur spilað með meistaraflokki frá 2018, fyrst með Þór, síðan Tindastóli þegar Þórsliðið var lagt niður, og svo aftur með Þór frá 2021. Eva hefur spilað samtals 91 leik í meistaraflokki, þar af 74 með Þór.

Eva spilaði 31 leiki með Þórsliðinu á nýafstöðnu tímabili, að meðaltali rúmar 32 mínútur í leik. Hún skoraði að meðaltali 11,9 stig í leik, tók 5,1 frákast, átti 3,9 stoðsendingar og með 11,2 framlagspunkta að meðaltali. Eva spilar með U20 landsliði Íslands.