Fara í efni
Íþróttir

Lokaspretturinn hjá handboltastelpunum

Leikmenn KA/Þórs hafa haft ærna ástæðu til þess að fagna í vetur. Framundan eru tveir síðustu leikir…
Leikmenn KA/Þórs hafa haft ærna ástæðu til þess að fagna í vetur. Framundan eru tveir síðustu leikir deildarkeppninnar. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Deildarkeppnin í handbolta kvenna er að ná hámarki. Lið KA/Þórs og Fram eru efst og jöfn fyrir tvær síðustu umferðirnar og Valsarar fylgja í humátt á eftir með þremur stigum minna. Svo skemmtilega vill til að Stelpurnar okkar mæta þessum tveimur Reykjavíkurliðum í lokaleikjunum.

KA/Þór tekur á móti Val í KA-heimilinu í dag og verður flautað til leiks klukkan 13.30. Aðeins eru 100 miðar í boði, miðasala hefst í KA-heimilinu klukkan 12.00 og verða ársmiðahafar að mæta á staðinn til að tryggja sér miða. Vert er að geta þess að leikurinn verður sýndur beint á sjónvarpsrás KA – smellið hér til að horfa.  

Framarar vinna FH-inga án nokkurs vafa í dag því Hafnarfjarðarliðið er lang neðst deildinni, enn án stiga. Því er gríðarlega mikilvægt fyrir KA/Þór að vinna Val til að standa jafnfætis Frömurum fyrri lokaumferðina. KA/Þór vann Fram í fyrri leiknum á Akureyri. Að deildarkeppninni lokinni verður svo úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn.

Í dag:

KA/Þór – Valur
FH – Fram

Laugardaginn 8. maí:

Fram – KA/Þór
Valur – HK