Fara í efni
Íþróttir

Lokaleikur Brynjars með KA verður á Dalvík

Brynjar Ingi Bjarnason verður í KA-liðinu sem mætir KR næsta mánudag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Næsti heimaleikur KA í Pepsi Max deildinni í knattspyrnu, efstu deild Íslandsmótsins, verður á Dalvíkurvelli eins og fyrri heimaleikir sumarsins. Það var endanlega ákveðið í morgun, þar sem Akureyrarvöllur (Greifavöllur) þykir enn ekki boðlegur.

Leikurinn verður næsta mánudagskvöld þegar KR-ingar koma í heimsókn. Flautað verður til leiks klukkan 19.15. Þetta verður síðasti leikur Brynjars Inga Bjarnasonar með KA áður en hann heldur til Ítalíu, þar sem hann hefur samið við B-deildarlið Lecce, eins og Akureyri.net hefur greint frá.

KA-menn gengu í morgun frá samningi við Mikkel Qvist, sem þeir fá lánaðan frá Horsens í Danmörku. Danski miðvörðurinn lék með KA í fyrrasumar og er ætlað að leysa Brynjar af hólmi það sem eftir lifir sumars. Þar sem Dusan Brkovic var rekinn af velli í síðasta leik og verður í banni gegn KR, og aðrir miðverðir KA eru meiddir, samdi félagið við forráðamenn Lecce um að Brynjar yrði með gegn KR.