Fara í efni
Íþróttir

Liði Andreu Mistar spáð áttunda sæti

Andrea Mist hitar upp fyrir leik með Växjö á dögunum. Ljósmynd: Guðmundur Svansson.

Andreu Mist Pálsdóttur og nýjum liðsfélögum hennar í Växjö DFF er spáð áttunda sæti í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta, sem hefst eftir tæpar tvær vikur.

„Mér líkar mjög vel hérna. Það er ekki auðvelt að komast í liðið en ég byrjaði leikinn á móti Linköpings,“ sagði Andrea við Akureyri.net. Liðið tapaði þeim leik 1:0 og einnig fyrir Häcken, en lagði svo Lidköping 4:0. Allir þessir leikir voru í bikarkeppninni, en fyrsti leikur Växjö í deildinni verður gegn AIK um aðra helgi.

Andrea kom við sögu í öllum þremur leikjunum. „Ég spila fremst á miðjunni og mér finnst mér hafa gengið ágætlega,“ segir hún.

Það var á Twitter-reikningi deildarinnar, Damallsvenskan, sem spáin birtist. Tólf lið eru í deildinni. Häcken er spáð titlinum annað árið í röð, landsliðskonunni Glódísi Perlu Víggósdóttur og samherjum í Rosengård er spáð öðru sæti og Kristianstad þriðja sæti en Sif Atladóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir leika með liðinu, Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari og Björn Sigurbjörnsson aðstoðarþjálfari.