Fara í efni
Íþróttir

„Leikur sem við urðum að vinna“

Þórsarar stíga sigurdans eftir leikinn í dag. Valþór Atli, Kukobat markvörður og Ingimundur Ingimund…
Þórsarar stíga sigurdans eftir leikinn í dag. Valþór Atli, Kukobat markvörður og Ingimundur Ingimundarson hægra megin. Gróttumaðurinn Lúðvík Thorberg sem átti síðasta skot leiksins vonsvikinn í baksýn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar unnu gríðarlega mikilvægan sigur, 18:17, á Gróttu síðdegis í dag í Olísdeildinni í handbolta. Leikið var í íþróttahöllinni á Akureyri. Grótta var einu marki yfir í hálfleik, 10:9.

Eftir leikinn eru Þórsarar með fjögur stig í næst neðsta sæti en Grótta einu sæti ofar með fimm stig. ÍR er neðst sem fyrr, enn án stiga. Tvö lið falla úr deildinni.

„Þetta var einfaldlega leikur sem við urðum að vinna. Með tapi hefðum við misst liðin alltof mikið fram úr okkur og þá hefði brekkan orðið rosalega brött. Leikurinn var ekkert sérstakur, að minnsta kosti ekki sóknarlega – við töpuðum boltanum alltof oft – en varnarlega vorum við frábærir. Mér fannst Hlynur [Matthíasson] algjörlega trylltur á miðjunni og allir varnarmennirnir eiga reyndar mikið hrós skilið, og auðvitað Jovan í markinu,“ sagði Valþór Atli Guðrúnarson við Akureyri.net að leikslokum, en hann lék óvænt í rúmar 10 mínútur – aðeins 20 dögum eftir að hann fór úr axlarlið í leik gegn Val!  „Framhaldið verður eins hjá okkur; þetta snýst um að safna stigum og við þurfum að reyna að halda því áfram. Við verðum að mæta í alla leiki til þess að berjast til loka, alveg sama hver mótherjinn er,“ sagði Valþór.

Sóknarleikur liðanna í dag var ekki til útflutnings, ef svo má segja. Allt of mikið um mistök og ef til vill ekki furða; mikið í húfi fyrir bæði lið og taugarnar þandar.

Þórsarar voru komnir í 4:1 eftir átta mínútur en þá gerðu gestirnir fimm mörk í röð; staðan 6:4 fyrir Gróttu eftir tæpt korter. Þórsarar jöfnuðu 7:7 eftir rúmar 20 mínútur en Grótta var einu marki yfir í hálfleik sem fyrr segir.

Leikurinn var jafn og spennandi allan seinni hálfleikinn, Grótta yfirleitt skrefinu á undan, Þórsarar jöfnuðu nokkrum sinnum en komust aðeins einu sinni yfir – 18:17, þegar Gísli Jörgen Gíslason gerði síðasta mark leiksins á lokamínútunni. Hann kom til Þórs á dögunum að láni frá FH og gerði þrjú flott mörk í dag. 

Varnarjaxlinn Aðalsteinn Ernir Bergþórsson fékk rautt spjald þegar 20 mínútur voru eftir, fyrir að fara með krumlurnar í andlit eins Gróttumannsins, og eftir það lék gamla brýnið Ingimundar Ingimundarson – einn silfurdrengjanna frá Ólympíuleikunum í Kína um árið – í miðri vörninni ásamt Hlyni Matthíassyni. Þetta var fyrsti leikur Ingimundar í vetur. 

Igor Kopyshynskyi, markahæsti Þórsari dagsins, jafnaði 17:17 úr víti, sem dæmt var þegar brotið var á Gísli Jörgen í dauðafæri og Gísli skoraði svo í lokin eftir gegnumbrot. Gróttumenn tóku leikhlé þegar 18 sekúndur voru eftir, sóknin var hálf vandræðaleg eftir það en Lúðvík Thorberg náði þó að brjótast í gegn á lokasekúndunni en hitti ekki markið. Þórsarar gátu því dansað sigurdans og gerðu það með tilþrifum. 

Mörk Þórs: Igor Kopyshynskyi 6/2, Gísli Jörgen Gíslason og Arnór Þorri Þorsteinsson 3 hvor, Garðar Már Jónsson 2, Hlynur Einar Matthíasson 1, Sigurður Kristófer Skjaldarson 1, Valþór Atli Guðrúnarson 1 og Karolis Stropus 1.

Varin skot: Jovan Kukobat 15, þar af 1 víti (46,9%)

Valþór Atli Guðrúnarson skorar eina mark sitt í dag, eftir gegnumbrot. Minnkaði þá muninn í 16:15, þegar tæpar 10 mínútur voru eftir og hann nýkominn inná. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

  • Efri myndin: Jovan Kukobat ver glæsilega eftir hraðaupphlaup þegar staðan var 16:16 og fjórar og hálf mínúta eftir.