Fara í efni
Íþróttir

Lárus lærir og leikur í Southern Illinois

Lárus Ingi Antonsson slær af fyrsta teig á Akureyrarmótinu í fyrra. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Lárus Ingi Antonsson, klúbbmeistari Golfklúbbs Akureyrar undanfarin tvö ár, heldur af stað á vit nýrra ævintýra til Bandaríkjanna seinna í sumar og stefnir á háskólanám í markaðsfræði við Southern Illinois háskóla. Samhliða því verður Lárus Ingi í golfliði skólans. Þetta kemur fram á vef Golfklúbbs Akureyrar.

Lið Southern Illinois, Saluki, er í 1. deild NCAA, íþróttakeppni bandarískra háskóla. Birgir Björn Magnússon var í liðinu í fyrra en hann er sonur Magnúsar Birgissonar (Björnssonar og Ingu Magnúsdóttur), sem kenndi hjá GA í fyrrasumar.

Haft er eftir Lárusi á vef GA að hann sé gríðarlega spenntur, skólinn væri flottur og miklir möguleikar fyrir frekari framförum í golfinu að fara þangað.

„Til gamans má geta að nú á dögunum komst fyrrum leikmaður Saluki, Luke Gannon, inn á Opna Bandaríska en hann útskrifaðist 2019 úr skólanum,“ segir á vef GA.