Fara í efni
Íþróttir

Langþráð að komast aftur inn á völlinn

Elfar Árni í leiknum gegn Þór í Kjarnafæðismótinu 1. febrúar á síðasta ári. Elfar hafði ekki tekið þ…
Elfar Árni í leiknum gegn Þór í Kjarnafæðismótinu 1. febrúar á síðasta ári. Elfar hafði ekki tekið þátt í leik síðan þá, þegar hann kom inn á í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA-menn burstuðu Aftureldingu 7:1, í Lengjubikarkeppninni í fótbolta í Mosfellsbæ í dag.

Ánægjulegustu tíðindi dagsins fyrir KA eru þó í raun að framherjinn Elfar Árni Aðalsteinsson snéri aftur á völlinn eftir meira en árs fjarveru vegna meiðsla. Krossband í hné slitnaði í leik gegn Þór í Kjarnafæðismótinu 1. febrúar á síðasta ári.

„Já, þetta var langþráð. Ég er búinn að bíða lengi eftir því að fá að spila í nokkrar mínútur,“ sagði Elfar Árni við Akureyri.net í dag. Hann kom inn á fyrir Ásgeir Sigurgeirsson þegar 15 mínútur voru eftir og var hinn hressasti. „Það er alltaf munur á því að vera með á æfingum eða taka þátt í leik og mikilvægt að safna mínútum í þessum leikjum í Lengjubikarnum. Það er gott að koma hægt og rólega inn, við eigum Grindavík um næstu helgi og fæ vonandi aðeins fleiri mínútur þá en í dag.“

Miðvörðurinn Brynjar Ingi Bjarnason gerði tvö mörk, það fyrsta og næst síðasta, Daníel Hafsteinsson skoraði einnig í tvígang, Jonathan Hendricks skoraði úr víti, einnig Hallgrímur Mar Steingrímsson, og Steinþór Freyr Þorsteinsson gerði síðasta markið.

Elfar Árni fékk kjörið tækifæri til að halda upp á daginn með marki því þegar KA fékk vítaspyrnu var hann sendur á punktinn en Garcia, markvörður Aftureldingu, varð frá honum. „Ég á eftir að stilla fótinn almennilega, hann er orðinn dálítið stirður!“ sagði Elfar Árni léttur við blaðamann.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna 

Þórsarar léku einnig í Lengjubikarnum í dag, gegn mjög sannfærandi FH-ingum í Hafnarfirði. Þar fóru heimamenn með sigur af hólmi, 4:0. Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.