Fara í efni
Íþróttir

Kvennalið SA komið með forystu í einvíginu

SA-konur fagna sigrinum í kvöld. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Kvennalið Skautafélags Akureyrar tók í dag forystuna í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn með 3-1 sigri á liði Fjölnis. Liðin mætast í öðrum leik einvígisins í Egilshöllinni á þriðjudagskvöld.

Það tók SA-konur rétt um tíu mínútur að opna markareikninginn. Anna Sonja Ágústsdóttir átti þá skot að marki sem var varið, en Ragnheiður Ragnarsdóttir var fyrst í frákastið og kom pökknum einhvern veginn yfir Karitas í marki Fjölnis og svo inn. Þetta reyndist eina markið í fyrsta leikhluta.

Bæði lið áttu hættulegar marktilraunir, en markverðir liðanna sinntu sínuum verkefnum vel og sáu til þess að annar leikhlutinn var markalaus. Það var svo ekki fyrr en nokkuð var komið inn í þriðja leikhlutann sem annað markið kom loks. Ragnheiður Ragnarsdóttir fékk þá pökkinn hægra megin eftir skottilraun Magdalenu Sulovu og sendingu frá Maríu Eiríksdóttur. Nokkrum mínútum síðar kom þriðja mark SA þegar Kolbrún Björnsdóttir skoraði eftir barning upp við markið, en þær rauðu voru þá tveimur fleiri eftir að leikmenn Fjölnis höfðu fengið refsingar.

Þegar aftur var orðið jafnt í liðunum náðu Fjölniskonur að minnka muninn. Eftir skot að marki sem Shawlee varði féll pökkurinn fyrir Hilmu Bóel Bergsdóttur sem kom honum í markið. Þá voru enn rúmar fjórar mínútur eftir. Eftir markið sóttu gestirnir ákaft að marki SA og áttu hættuleg færi. Þær tóku markmanninn út af á lokakaflanum, þegar um þrjár og hálf mínúta voru eftir og gerðu atlögu að markinu með aukaútileikmann í stað markvarðarins. Fjölniskonur voru sex á móti fjórum síðustu tvær mínúturnar því leikmaður SA fékk refsingu þegar um tvær mínútur voru eftir, en SA-konur vörðust vel og sigldu sigrinum í höfn.

SA - SR 3-1 (0-0, 1-0, 2-1)

 • 1-0 Ragnheiður Ragnarsdóttir (10:22). Stoðsending: Anna Sonja Ágústsdóttir, Kolbrún Björnsdóttir.
  - - -
 • 2-0 Ragnheiður Ragnarsdóttir (46:10). Stoðsending: Magdalena Sulova, María Eiríksdóttir.
 • 3-0 Kolbrún Björnsdóttir (51:41). Stoðsending: María Eiríksdóttir.
 • 3-1 Hilma Bóel Bergsdóttir (55:41). Stoðsending: Teresa Snorradóttir, Kolbrún Garðarsdóttir.

SA
Mörk/stoðsendingar: Ragnheiður Ragnarsdóttir 2/0, Kolbrún Björnsdóttir 1/1, María Eiríksdóttir 0/2, Anna Sonja Ágústsdóttir 0/1, Magdalena Sulova 0/1. 
Varin skot: Shawlee Gaudreault 29 (8, 9, 12) –  96,67%.
Refsimínútur: 6.

Fjölnir
Mörk/stoðsendingar: Hilma Bóel Bergsdóttir 1/0, Teresa Snorradóttir 0/1, Kolbrún Garðarsdóttir 0/1.
Varin skot: Karitas Halldórsdóttir 23 (7, 10, 6) – 88,46%.
Refsimínútur: 8.


Stuðningssveit SA var öflug eins og jafnan áður. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Fróðleiksmolar

 • Íshokkídeild SA á hrós skilið fyrir skemmtilega umgjörð og innkomu liðsins fyrir leik, með risaskjá við annan enda skautasvellsins, ljósasýningu, tónlist og risafána sem leikmenn skauta í gegnum þegar liðið mætir til leiks.
 • Akureyri hefur löngum verið höfuðvígi íshokkííþróttarinnar og raunar njóta sunnanliðin góðs af því að öflugir leikmenn frá Akureyri fara suður í nám eða af öðrum ástæðum og skipta þar með um félag. Í fyrstu línu Fjölnis koma fjórir af fimm leikmönnum upprunalega úr röðum SA og samtals sex í leikmannahópi liðsins.
 • Vel var mætt í höllina og góð stemning, öflugur stuðningur heimafólks, eins og yfirleitt er á hokkíleikjum.
 • Annar leikur liðanna verður í Egilshölinni þriðjudaginn 27. febrúar og hefst kl. 19:45.

Tölur úr deildarkeppninni

Akureyri.net fletti í gegnum nokkur tölfræðiskjöl úr Hertz-deild kvenna í vetur. Þar þarf ekki að koma á óvart að fremstu leikmenn SA næstum einoka listana yfir efstu leikmenn í ýmsum þáttum. Silvía Rán Björgvinsdóttir, Ragnhildur Kjartansdóttir og Shawlee Gaudreault eru í toppsætunum.

Samalögð mörk og stoðsendingar

 • 1. Silvía Rán Björgvinsdóttir – 38
 • 2. Berglind Leifsdóttir (FJÖ) – 23
 • 3. Sigrún Agatha Árnadóttir (FJÖ) – 22
 • 4. Ragnhildur Kjartansdóttir – 16
 • 5. Sólrún Assa Arnardóttir – 14

Skoruð mörk

Silvía Rán Björgvinsdóttir er í algjörum sérflokki í deildinni, stigahæst, markahæst og skorar úr fimmta hverju skoti eða svona um það bil. Það er allnokkuð ef haft er í huga að markverðir deildarinnar eru allir með yfir 90% markvörslu. Góðir sóknarmenn eru oft með 10-15% nýtingu þannig að þetta hlutfall hjá Silvíu Rán er magnað og ef til vill enn magnaðra í ljósi þess að hún er spilandi þjálfari liðsins. Mætti jafnvel kalla hana svindlkall eins og stundum er gert við yfirburðaleikmenn. 

 • 1. Silvía Rán Björgvinsdóttir – 27
  Úr 132 skotum – 20,45%
 • 2. Sigrún Agatha Árnadóttir (FJÖ) – 14
  Úr 105 skotum, 13,33%
 • 3. Berglind Leifsdóttir (FJÖ) – 12
  Úr 70 skotum, 17,14% 
 • 4. Sólrún Assa – 6 mörk
  Úr 44 skotum – 13,64% 
 • 5. Anna Sonja Ágústsdóttir – 6
  Úr 38 skotum – 15,79%

Stigahæstu varnarmenn

 • 1. Ragnhildur Kjartansdóttir – 16 stig (5+11)
 • 2. Anna Sonja Ágústsdóttir – 10 stig (6+4)
 • 3. Friðrika Magnúsdóttir (SR) – 10 stig
 • 4. Teresa Snorradóttir (FJÖ) – 9 stig
 • 5. Guðrún Marín Viðarsdóttir (FJÖ) – 8 stig

Stoðsendingar

 • 1. Ragnhildur Kjartansdóttir – 11 (10 leikir)
 • 2. Silvía Rán Björgvinsdóttir – 11 (16 leikir)
 • 3. Berglind Leifsdóttir (FJÖ) – 11 (16 leikir)
 • 4. Sólrún Assa Arnardóttir – 8 (14 leikir)
 • 5. Sigrún Agatha Árnadóttir – 8 (15 leikir)

Plús/mínus

SA á fimm efstu leikmenn á listanum yfir það sem kallast plús/mínus, þar sem skiptir máli hvort leikmenn eru inni á svellinu þegar skorað er eða þegar lið fær á sig mörk.

 • 1. Silvía Rán Björgvinsdóttir – 32
 • 2. Amanda Ýr Bjarnadóttir – 30
 • 3. Sólrún Assa Arnardóttir – 24
 • 4. Anna Sonja Ágústsdóttir – 22
 • 5. Ragnhildur Kjartansdóttir – 15

Markvarsla

 • 1. Shawlee Gaudreault – 304 varin skot, 95%
  Spilaði 780:05 mínútur, fékk á sig 16 mörk úr 320 skotum
 • 2. Karitas Halldórsdóttir (FJÖ) – 341 varið skot, 91,18%
  Spilaði 775:58 mín, fékk á sig 33 mörk úr 374 skotum
 • 3. Andrea Bachmann (SR) – 632 varin skot, 91,07%
  Spilaði 960:39 mín, fékk á sig 62 mörk úr 694 skotum