Kristnes: Starfsfólk vantar í 8 stöðugildi
Starfsfólk vantar í átta stöðugildi á endurhæfingardeild Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) í Kristnesi, til þess að hægt verði að halda þar uppi óbreyttri starfsemi, fjóra hjúkrunarfræðinga og fjóra sjúkraliða. Þetta segir Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk við akureyri.net.
Ákveðið var í haust að frá næstu áramótum verði hætt með sjö daga endurhæfingu í Kristnesi, hún verði í boði virka daga en deildin lokuð um helgar. Starfsfólk lyflækningadeildar SAk lýsti í gær yfir verulegum áhyggjum vegna fyrirhugaðra breytinga; sjúklingahópur sem þarfnist sérhæfðrar endurhæfingar muni í kjölfarið fá hana á bráðalegudeildum SAk en þar geti fullnægjandi endurhæfing ekki átt sér stað. Það væri faglegt mat starfsfólksins að afstýra yrði ákvörðun um breytingarnar í Kristnesi.
Þungur róður þyngist enn
„Það er með öllu ljóst að þetta mun þyngja verulega róðurinn á lyflækningadeildinni, sem nú þegar er verulega þungur vegna fráflæðisvanda og álags,“ sagði meðal annars í opnu bréfi starfsmanna lyflækningadeildar SAk til stjórnvalda. „Ljóst er að þetta mun auka enn frekar á fráflæðisvanda deildarinnar, hætt er við því að þetta skerði lífsgæði þeirra sem fá ekki fullnægjandi endurhæfingu sem og að öryggi bráðveikra sjúklinga gæti verið ógnað ef farið verður í að útskrifa of snemma vegna plássleysis.“
- Fráflæðisvandi er það kallað þegar sjúklingar á legudeild komast ekki inn á öldrunarheimili, þótt búið sé að meta viðkomandi á þann veg að þeir ættu að komast þar að, og geta heldur ekki fari heim.

Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri SAk, til vinstri, og Alma Möller heilbrigisráðherra í loka síðasta mánaðar þegar ráðherra og föruneyti hans funduðu með stjórnendum SAk vegna erfiðrar stöðu á stofnuninni við mönnun ákveðinna sérgreina, sér í lagi lyflækninga. Mynd af vef SAk.
Í yfirlýsingu sem birt var á vef SAk síðdegis í gær (og sjá má í heild hér að neðan) er upplýst að ástæða breytinganna í Kristnesi væri mannekla. Hildigunnur forstjóri segist, í samtali við akureyri.net, vitaskuld skilja áhyggjur starfsfólks lyflækningadeildar og verið sé að leita lausna; hún og framkvæmdastjóri séu að ræða við starfsfólk deildarinnar og í Kristnesi til að skilja sjónarmið allra og kanna mögulegar lausnir.
Leita samstarfs
Í yfirlýsingu SAk, sem nefnd var að framan, kemur fram að leitað hafi verið samstarfs við endurhæfingardeild Landspítala, Grensásdeildina, einnig við Heilbrigðisstofnanir Norðurlands og Austurlands, Heilsuvernd hjúkrunarheimili og sjúkrahótel. Svör liggja ekki fyrir.
- Frétt akureyri.net í morgun: Faglegt mat að afstýra verði lokun endurhæfingardeildar í Kristnesi um helgar
- Opið bréf starfsmanna lyflæknigadeildar SAk til stjórnvalda
Tilkynningin sem birt var á vef Sjúkrahússins síðdegis er svohljóðandi í heild:
Frá upphafi heimsfaraldursins 2020 hefur þurft að skerða endurhæfingarþjónustu á Kristnesi, einkum vegna manneklu. Á sama tíma hefur vaxandi fráflæðisvandi á bráðadeildum SAk leitt til þess að sjúklingum hefur í auknum mæli verið beint í þjónustu endurhæfingardeildar á Kristnesi.
Í haust var ljóst að horfa þyrfti til breytinga á þjónustu vegna mönnunarvandans. Niðurstaðan var að hætta 7 daga endurhæfingu á Kristnesi og styrkja í staðinn 5 daga- og dagdeildarþjónustu fyrir fólk á öllum aldri. Frá því að ákvörðunin lá fyrir hefur verið unnið að fjölbreyttum lausnum s.s. að stofna sérhæft endurhæfingarteymi nær bráðadeildum og var í því skyni ákveðið að fjölga stöðugildum sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, félagsráðgjafa og talmeinafræðings. Búið er að stofna öldrunarteymi sem hefur það að markmiði að leggja aukna áherslu á heildrænt öldrunarmat fyrir eldri einstaklinga og létta á mönnun lyflækna. Þá hefur samstarfs verið leitað m.a. við LSH Grensás, HSN, HSA, Heilsuvernd hjúkrunarheimili og sjúkrahótel.

Sjúkrahúsið á Akureyri. Mynd: Þorgeir Baldursson
Verkefnið er hins vegar afar umfangsmikið og flókið og mikið þarf til þess að settu markmiði sé náð – líkt og starfsfólk á lyflækningadeild hefur bent á í opnu bréfi sínu. Sjúkrahúsið stendur frammi fyrir mörgum áskorunum. Húsnæði SAk á Eyrarlandsvegi er takmarkað en unnið er að endurbótum á um 4000 fm2 vegna rakaskemmda. Skortur á hjúkrunarrýmum á Akureyri hamlar einnig nauðsynlegum lausnum, enda hefur fjölgun þeirra tafist og rými jafnvel fallið út. Nýtt hjúkrunarheimili og nýbygging við SAk verða ekki tilbúin fyrr en árið 2028 sem eykur fráflæðivandann.
Langtímalausnir liggja í auknum hjúkrunar- og endurhæfingarrýmum, bættu húsnæði og fjölgun sérhæfðs starfsfólks. Þar til ásættanleg langtímalausn liggur fyrir þarf að leita tímabundinna leiða til að brúa bilið. Á þeim tíma er nauðsynlegt að byggja á samstarfi og samvinnu og það augljósa forgangsverkefni er að tryggja öryggi sjúklinga.