Fara í efni
Íþróttir

Kristján Logi tók 365 kíló í bekkpressu

Kristján Logi á bekknum að klára 365 kílóa lyftuna.

Akureyringurinn Kristján Logi Einarsson lyfti mestu þyngd sem Íslendingur hefur tekið í bekkpressu með búnaði á móti sem haldið var í lyftingaaðstöðu Þurs á Hjalteyri á gamlársdag. Kristján Logi lyfti 365 kílóum. Myndband af lyftunni má sjá á Instagram-síðu Kristjáns Loga - sjá hér.

Kristján Logi hefur stundað íþróttir síðan hann var ungur, hefur prófað ýmsar greinar, var í kraftlyftingum og prófaði aflraunir, svo eitthvað sé nefnt. Fyrir tveimur árum varð breyting á og hann ákvað að prófa bekkpressu með búnaði og segist hafa orðið ástfanginn af þeirri grein. Hann segir mikið mál að stunda íþróttina enda er hann giftur og á tvö börn, er í fullri vinnu og aukavinnu, en stuðningur frá Strýtunni ehf., köfunarfyrirtæki á Hjalteyri, hjálpaði honum í uppkeyrslunni fyrir þennan árangur. Stefnan fyrir mótið var reyndar á enn meiri þyngd því markmiðið er að fara yfir 400 kílóin, en veikindi í aðdraganda mótsins á gamlársdag settu smá strik í reikninginn. Kristján Logi segir klárlega markmið að fara út á alþjóðleg mót og keppa í bekkpressu þar sem hann stefnir á að láta til sín taka.


Kristján Logi Einarsson er giftur tveggja barna faðir í fullri vinnu og aukavinnu, auk þess að stunda kraftlyftingar. 

Það er ekki alveg einfalt að fjalla um kraftlyftingar og árangur, Íslandsmet eða mestu þyngd sem Íslendingur hefur tekið því reglur um búnað eru mismunandi eftir kraftlyftingasamböndum. Með þeim búnaði sem Kristján Logi notaði telst lyftan ekki Íslandsmet samkvæmt reglum innan Krafts og IPF (International Powerlifting Federation). Munurinn á búnaði felst einkum í breidd bekksins eða mottunnar sem lyftingamaðurinn hefur undir sér, ásamt fatnaði og hlífum sem notuð eru, en kannski of flókið að ætla að útskýra það í stuttri frétt. Búnaðurinn sem Kristján Logi notaðist við er í flokki F8 og er sams konar og miðað er við í keppnum erlendis með búnaði. Heimsmetið með slíkum búnaði á Jimmy Kolb, en hann lyfti 635 kílóum í júlí í fyrra. Skráð Íslandsmet innan Krafts og IPF er 330,5 kíló, sem Júlían K. Jóhannsson úr Ármanni tók á Íslandsmóti Kraftlyftingasambandsins í september 2020.

Lyftingaaðstaðan á Hjalteyri er í eigu Þurs, sem Kristján Logi keppir fyrir, en á mótinu voru einnig keppendur frá Kraftlyftingafélagi Akureyrar (KFA). Viðurkenndir dómarar voru á mótinu.