Fara í efni
Íþróttir

„Köstuðum þessu því miður frá okkur“

Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

„Þetta var virkilega súrt,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari kvennaliðs KA/Þórs í handbolta, við Akureyri.net eftir að liðið missti unnin leik niður í jafntefli á síðustu andartökunum í gærkvöldi. Þetta var margumræddur deildarleikur sem liðunum var gert að spila aftur í Garðabæ; sá fyrri var úrskurðaður ólöglegur.

„Við mættum ekki alveg nógu vel varnarlega í þennan leik en síðasta korterið í fyrri hálfleik náðum við að þétta vörnina og fengum góð hraðaupphlaupsmörk,“ sagði Andri. „Í seinni hálfleik vorum við með leikinn í okkar höndum en gerðum okkur erfitt fyrir með því að vörnin fór að mígleka síðustu 12 mínúturnar. Svo nýttum við ekki nokkur dauðafæri og köstuðum þessu því miður frá okkur.“

Andri segir að þrátt fyrir allt geti hópurinn tekið ýmislegt gott úr leiknum og allir mæti 100% tilbúnir í næsta verkefni – leik gegn Val í KA-heimilinu á laugardaginn. „Það verður skemmtilegt verkefni og við ætlum sannarlega að selja okkur dýrt. Ég hvet Akureyringa til að koma og hvetja okkar lið í baráttunni!“ sagði Andri.

Valur er í þriðja sæti deildarinnar með 15 stig. Leikurinn verður sá næst síðasti áður en úrslitakeppnin hefst; KA/Þór mætir Fram í síðustu umferðinni, en liðin tvö eru nú efst og jöfn með 18 stig.

Smelltu hér til að lesa um leikinn.