Fara í efni
Íþróttir

Komdu í bolta með Mola fjórða árið í röð

Siguróli Kristjánsson með fyrsta hópnum sem hann hitti í sumar, í Reykholti í Bláskógabyggð á þriðjudaginn.

Akureyringurinn Siguróli Kristjánsson, Moli, er farinn af stað fjórða árið í röð á vegum Knattspyrnusambands Íslands og mun heimsækja börn á litlum stöðum víða um land eins og hann hefur gert til þessa. Verkefnið kallast Komdu í bolta með Mola og hefur vakið gríðarlega lukku.

Moli og karl faðir hans, Kristján Pétursson, hafa flakkað um landið í því skyni að breiða út fótboltaboðskapinn, og eru enn saman á ferð. Þeir hófu leikinn að þessu sinni í Reykholti í Bláskógabyggð á þriðjudaginn, í gær voru þeir á Hvolsvelli og í dag í Brautarholti, með pönnuvöllinn góða í farteskinu. 

„Öll börn eru okkar börn. Við förum á smáu og flottu staðina því um allt land er efniviður í frábæra einstaklinga sem munu starfa við knattspyrnu, sem leikmenn – jafnvel landsliðsmenn – forráðamenn, stjórnarmenn eða aðrir sjálfboðaliðar eða dómarar; allt eru það mikilvægir hlekkir til að þessi frábæra íþrótt blómstri áfram,“ segir Moli.

Í Reykholti, þar sem Moli segir mikla uppbyggingu í gangi, mættu 32 börn. „Á Hvolsvelli var svo sennilega sett met í mætingu til okkar; 70 krakkar mættu sem var algjörlega frábært og mikil gleði í hópnum.“ Þar voru krakkar frá Hvolsvelli og Hellu, úr Landeyjum, svæðinu undir Eyjaföllum og sum komu alla leið austan úr Öræfum! „Sameinað félag KFR er klárlega á mikilli siglingu í barnastarfi. Þarna voru til dæmis 40 krakkar á leikskólaaldri. Alveg frábært!“ segir Moli.

Myndir úr Reykholti:

Myndir frá Hvolsvelli: