Fara í efni
Íþróttir

Kom skemmtilega á óvart að vera fyrirliði

Arna Sif Ásgrímsdóttir fagnar eftir að hún skoraði í sigurleiknum gegn Celtic um síðustu helgi.
Arna Sif Ásgrímsdóttir fagnar eftir að hún skoraði í sigurleiknum gegn Celtic um síðustu helgi.

Arna Sif Ásgrímsdóttir var fyrirliði Glasgow City þegar liðið burstaði Forfar Farmington á útivelli, 7:0, í skosku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Hún hefur því verið í sigurliði í tveimur fyrstu leikjunum með Glasgow.

„Fyrirliðahlutverkið kom skemmtilega á óvart. Þær sem hafa verið fyrirliðar voru báðar á bekknum í dag og þjálfarinn ákvað að setja bandið á mig. Það er mikill heiður og bara gaman að hann treysti mér í það hlutverk,“ sagði Arna Sif við Akureyri.net í dag.

Yfirburðir Glasgow City voru miklir – tölurnar tala sínu máli. „Þetta var eiginlega einstefna allan leikinn og því rólegur dagur fyrir varnalínuna,“ sagði Arna. Lið Forfar hafi leikið mjög þéttan varnarleik, ekki hætt sér framarlega og illa hafi gengið að brjóta niður varnarmúrinn framan af. „Við áttum reyndar fullt af færum í fyrri hálfleik en náðum ekki að nýta nema eitt. Það gekk svo betur í seinni hálfleik og við hefðum átt að vinna enn stærri sigur.“

Fyrsta markið kom ekki fyrr en á lokamínútum fyrri hálfleiks en gestirnir þrjú mörk á fyrstu 10 mínútum þess seinni. Arna átti þátt í einu marki, var við fjærstöng þegar boltinn var sendur fyrir markið eftir hornspyrnu, skallaði hann til baka fyrir markið, þar sem liðsfélagi átti auðvelt með að skora.