Fara í efni
Íþróttir

Keppt í næst sterkustu mótaröð heims á Akureyri

Endasprettur í göngu er oft verið æsispennandi, eins og í þessari sprettgöngu á Íslandsmóti í Hlíðar…
Endasprettur í göngu er oft verið æsispennandi, eins og í þessari sprettgöngu á Íslandsmóti í Hlíðarfjalli fyrir nokkrum árum. Án efa verður hart barist á Skandinavia Cup mótinu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Skíðagöngumót í Scandinavian Cup mótaröðinni verður haldið á Akureyri í mars árið 2022. Þetta er næst sterkasta mótaröð í skíðagöngu hjá alþjóða skíðasambandinu, FIS, á eftir heimsbikarnum. Skíðafélag Akureyrar sér um framkvæmd mótsins.

Unnið hefur verið að því að fá mótaröðina til Íslands í nokkur ár og nú er loksins komið að því; mótið fer fram dagana 18. til 20. mars, frá fimmtudegi til laugardags, og verður lokamót vetrarins. Margir núverandi keppendur á heimsbikarmótunum hafa byrjað á þessari mótaröð áður en þeir færast upp í keppni þeirra bestu. Þess vegna er aldrei að vita nema vonarstjörnur framtíðarinnar í skíðagöngu verði í eldlínunni á Akureyri í mars á þar næsta ári.

Ljóst er að mikill fjöldi keppenda kemur til Akureyrar vegna mótsins. Á heimasíðu Skíðafélags Akureyrar segir að gera megi ráð fyrir um 300 gestum frá átta löndum og þar af leiðandi um 1200 gistinóttum á hótelum á tímabilinu „sem er mikilvægt lóð á vogarskálar og skapar tekjur og innspýtingu í bæjarlífið hér,“ eins og segir á heimsíðu SKA.

Þar segir ennfremur: „Það er með góðum stuðningi þekktra skíðagöngumanna, þeirra Daníels Jakobssonar og Einars Ólafssonar sem styrkja þann góða jarðveg sem Skíðafélag Akureyrar býr að. Áratuga reynsla af mótahaldi á Akureyri í alpagreinum, skíðagöngu og á snjóbrettum er sá grunnur sem félagið býr að en þeir Daníel og Einar hafa þá alþjóðlegu reynslu og innsýn sem þarf til viðbótar við að tryggja að allt verði í samræmi við ítrustu kröfur.“

Skíðafólki finnst langþráður draumur rætast með því að Akureyringum sé úthlutað mótinu og þar á bæ gleðjast menn að vonum. „Við erum stolt og sátt og hlökkum til að takast á við þetta gríðarlega spennandi verkefni og erum þess fullviss að Akureyrar munu ekki bregðast við að taka vel á móti þáttakendum og stuðningsliði þeirra,“ segir á heimasíðu SKA.