Fara í efni
Íþróttir

Keppnisskíði Kötlu Bjargar komin á hilluna

Katla Björg Dagbjartsdóttir úr Skíðafélagi Akureyrar eftir að hún varð í 34. sæti í stórsvigi á heimsmeistaramótinu í Cortina á Ítalíu árið 2021. Ljósmynd: Skíðasamband Íslands.

Fremsta svigkona landsins, Akureyringurinn Katla Björg Dagbjartsdóttir, hefur ákveðið að leggja skíðin á hilluna eftir baráttu við þrálát meiðsli. Hún varð þrefaldur Íslandsmeistari í vor; vann gullverðlaun bæði í svigi og stórsvigi og þar með í alpatvíkeppni.

Katla Björg er aðeins 23 ára, verður 24 ára í næsta mánuði. Hún hefur „verið að glíma við höfuðmeiðsli síðastliðna 17 mánuði eftir að hún rotaðist á æfingu daginn fyrir Skíðamót Íslands 2022. Þrálátir verkir og vanlíðan hafa gert það að verkum að hún tekur þá ákvörðun að hætta og setja heilsuna í fyrsta sæti,“ segir í tilkynningu sem Fannar Gíslason, formaður Skíðafélags Akureyrar, birti á vef félagsins í kvöld.

Rifjað er upp í tilkynningunni að Katla Björg tók þátt í tveimur heimsmeistaramótum fullorðinna og náði besta árangri íslenskra kvenna í stórsvigi á þeim vettvangi þegar hún varð í 34. sæti í Cortina árið 2021. Einnig hefur hún tekið þátt á tveimur heimsmeistaramótum unglinga.

Góðar fyrirmyndir mikilvægar

Katla Björg sigraði tvívegis á alþjóðlegu svigmóti fullorðinna á erlendri grundu og hafnaði sex sinnum á verðlaunapalli á slíkum mótum. Auk  þess vann hún fjölmörg bikarmót á Íslandi á ferlinum ásamt því að vera margfaldur unglingameistari sem og bikarmeistari. Síðastliðið vor varð hún svo þrefaldur Íslandsmeistari, sem fyrr segir.

„Það er mikilvægt fyrir yngri iðkendur skíðafélagsins að eiga góðar fyrirmyndir eins og Katla hefur ávallt verið. Skíðafélagið óskar Kötlu velfarnaðar í því sem hún tekur sér fyrir hendur,“ segir í tilkynningunni sem lýkur með þessum orðum: 

„Katla Björg vill koma á framfæri þökkum til styrktaraðila, þjálfara, liðsfélaga, keppinauta og annarra sem stutt hafa við bakið á henni í gegnum árin.“

Katla Björg sigri hrósandi á Skíðamóti Íslands á Dalvík fyrr á þessu ári. Ljósmynd Guðmundur Jakobsson/Skíðasamband Íslands