Fara í efni
Íþróttir

Kemst KA í fjórða úrslitaleikinn?

Nökkvi Þeyr Þórisson og Hallgrímur Mar Steingrímsson fagna 17. marki þess fyrrnefnda í Bestu deildinni í sumar, í leiknum gegn Víkingi á dögunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn stefna að því að tryggja sér sæti í úrslitaleik bikarkeppni KSÍ í fjórða skipti í dag. Í ljós kemur um kvöldmatarleytið hvort þeim tekst ætlunarverkið, en flautað verður til viðureignar KA og FH í undanúrslitunum klukkan 17.00 á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði.

  • Leikurinn verður í beinni útsendingu á RÚV 2.
  • Stuðningsmenn KA ætla að hittast á veitingastaðnum Sport & Grill í Smáralind upp úr klukkan 15.00 til að hita upp.

Leið KA í undanúrslitin var sem hér segir:

  • KA – Reynir Sandgerði 4:1
  • KA – Fram 4:1
  • KA – Ægir 3:0

Íslands- og bikarmeistarar Víkings eru komnir í úrslit eftir að þeir tóku lið Breiðabliks óvænt í kennslustund í Kópavogi í gær og unnu 3:0. Breiðablik er sem kunnugt er efst í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins. Sigurvegari leiksins í dag mætir sem sagt Víkingi í úrslitaleik á Laugardalsvelli laugardaginn 1. október.

KA-menn hafa verið á miklu skriði á Íslandsmótinu undanfarið og eru í öðru sæti Bestu deildarinnar með 36 stig, níu stigum á eftir Breiðabliki og einu á undan Víkingum, sem eiga þó leik til góða.

FH hefur hins vegar verið í miklu basli í sumar og er í þriðja neðsta sæti deildarinnar með aðeins 15 stig. KA vann öruggan 3:0 sigur á FH í Bestu deildinni í Kaplakrika fyrir skömmu, þar sem Hallgrímur Mar Steingrímsson, Nökkvi Þeyr Þórisson og Bryan Van Den Bogaert skoruðu.

Nökkvi Þeyr er lang markahæstur í deildinni í sumar með 17 mörk í 19 leikjum og athyglisvert er að FH-liðið hefur aðeins gert 20 mörk í deildinni – þremur meira en Nökkvi, en KA-liðið hefur gert 40 mörk.

Auk markanna 17 í deildinni hefur Nökkvi skorað fimm mörk í tveimur bikarleikjum, þrjú gegn Fram í 16 liða úrslitum og tvö í átta liða úrslitunum gegn Ægi.

Áttundi leikur KA í undanúrslitum