Fara í efni
Íþróttir

Katrín og Ingi urðu heimsmeistarar á snjóskautum!

Katrín Karítas Viðarsdóttir og Ingi Freyr Sveinbjörnsson kampakát á Ítalíu í dag.
Katrín Karítas Viðarsdóttir og Ingi Freyr Sveinbjörnsson kampakát á Ítalíu í dag.

Akureyringarnir Katrín Karítas Viðarsdóttir og Ingi Freyr Sveinbjörnsson gerðu sér lítið fyrir og urðu heimsmeistarar á snjóskautum á Ítalíu í dag. Katrín Karítas meira að segja tvöfaldur heimsmeistari!

Mótið, Amazfit Snowcross World Championship, fer fram um helgina í skíðaparadísinni Schöneben, rétt við landamærin að Austurríki.

„Annars vegar er keppt í braut þar sem fjórir renna sér niður í einu; beinni braut þar sem eru ýmsar hindranir og göng á leiðinni, og Katrín Karítas rústaði þeirri keppni! Ég komst hins vegar ekki nema í undanúrslit,“ sagði Ingi Freyr þegar Akureyri.net náði í hann í kvöld.

„Svo er keppt í freestyle, samskonar braut og margir þekkja úr brettakeppni; þar er stokkið á pöllum og menn gera alls konar trikk. Katrín vann líka þá keppni og ég vann karlakeppnina með yfirburðum,“ sagði Ingi Freyr.

Ekki er víst að margir kannist við snjóskauta en Ingi segir þó sífellt fleiri spreyta sig á þeim. „Við höfum haldið svona keppni á Winter Games heima á Akureyri. Þetta er orðið stórt úti í heimi, hér voru keppendur frá fjölda landa, Ítalíu, Þýskalandi, Austurríki og Tékklandi svo ég nefni dæmi, en Asíubúar komu ekki í þetta skipti vegna Covid. Þetta er orðið mjög stórt sport í Asíu.“

Ingi Freyr er ekki nýgræðingur í sportinu og hefur meira að segja sigrað á heimsmeistaramótinu áður, fyrir nokkrum árum.

„Það er mjög skemmtileg tilbreyting að fara á snjóskauta ef menn langar að prufa eitthvað nýtt í vetrarsporti. Við æfum okkur í Hlíðarfjalli þótt aðstæður séu ekki sérstakar. Það er meira að segja hægt að leigja skauta í fjallinu ef fólk vill prófa,“ segir hann.

Ámóta keppni á ísskautum er gríðarlega vinsæl víða um heim að sögn Inga. „Það eru á ferðinni frábærir íþróttamenn, atvinnumenn á ísskautum, og það er risadæmi. Þegar ekki er verið að keppa í ísskautum koma þeir stundum og keppa á snjóskautum og þá er mikið fjör!“

Katrín Karítas Viðarsdóttir á efsta palli í dag á Ítalíu - tvöfaldur heimsmeistari.

Ingi Freyr Sveinbjörnsson, fyrir miðju, fagnar heimsmeistaratitlinum í dag.