Fara í efni
Íþróttir

KA/Þór til Kósóvó í Evrópukeppninni

Martha Hermannsdóttir, fyrirliði KA/Þórs, hampar Íslandsbikarnum í vor. Ljósmynd: Sara Skaptadóttir.

Íslandsmeistarar KA/Þórs í handbolta kvenna mæta liði KHF Istogu frá Kosovo í 2. umferð Evrópubikarkeppni kvenna. Nafn Istogu, sem varð Kósóvómeistari í vor, var dregið á undan svo fyrri viðureign liðanna á að fara fram ytra. Dregið var rétt í þessu í höfuðstöðvum Handknattleikssambands Evrópu (EHF) í Vínarborg.

Keppt er á laugardegi eða sunnudegi. Fyrri leikirnir eru á dagskrá 16. og 17. október og þeir seinni viku síðar, 23. og 24. október.

Alls eru 57 lið skráð til leiks í keppnina og 50 þeirra mæta til leiks í 2. umferð, þar á meðal KA/Þór. Evrópubikarkeppnin er þriðja sterkasta félagsliðakeppni EHF á eftir Evrópudeildinni og Meistaradeild Evrópu.