Fara í efni
Íþróttir

KA/Þór enn á toppnum eftir þriðja sigurinn

Leikmenn KA/Þórs fagna sigri á Stjörnunni fyrir skömmu. Stelpurnar hafa unnið alla þrjá leikina til þessa í efstu deild Íslandsmótsins. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA/Þór bar sigurorð af Selfossi 27:25 á útivelli í þriðju umferð Olísdeildar kvenna í handbolta í gærkvöld. Þetta var þriðji sigurleikurinn í röð og liðið er í efsta sæti deildarinnar eftir fyrstu þrjár umferðirnar. 

Þessum liðum hefur verið spáð neðstu sætunum í deildinni en KA/Þór hefur engan áhuga á því að hlusta á svoleiðis spádóma og er núna eina taplausa liðið í deildinni. Í fyrri hálfleiknum á Selfossi var jafnt nánast á öllum tölum en KA/Þór þó yfirleitt aðeins á undan. Í leikhléi munaði einu marki, staðan 16:15 KA/Þór í vil.

Seinni hálfleikur byrjaði vel hjá þeim norðlensku og þær skoruðu fyrstu fjögur mörkin og forskotið komið upp í fimm mörk. En þá vöknuðu Selfyssingar heldur betur til lífsins og á næstu 15 mínútum skoruðu þær 9 mörk gegn einu frá KA/Þór og sneru leiknum sér í vil. Staðan 24:21 fyrir Selfoss þegar um 10 mínútur voru til leiksloka. En síðustu mínúturnar skipti leikurinn aftur um eigendur og eftir að hafa verið 25:22 undir náði KA/Þór loks að loka á þær selfyssku og skora fimm síðustu mörk leiksins. Staðan var jöfn þegar örfáar sekúndur lifðu leiks en með mörkum úr vítakasti og síðan hraðaupphlaupi á síðustu sekúndunni landaði KA/Þór býsna torsóttum sigri.

Næsti leikur liðsins verður gegn Haukum í KA-heimilinu næstkomandi laugardag kl. 18.

Mörk KA/Þórs: Susanne Denise Pettersen 5, Anna Þyrí Halldórsdóttir 4, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 4, Trude Blestrud Hakonsen 4, Tinna Valgerður Gísladóttir 3 (3 víti), Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 2, Anna Petrovics 1, Ólöf Kristín Þorsteinsdóttir 1, Unnur Ómarsdóttir 1, Rakel Sara Elvarsdóttir 1, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 1.

Varin skot: Matea Lonac 11 (1 víti).

Mörk Selfoss: Hulda Dís Þrastardóttir 6 (3 víti), Eva Lind Tyrfingsdóttir 6, Arna Kristín Einarsdóttir 5, Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir 4, Mia Kristin Syverud 2, Hulda Hrönn Bragadóttir 1, Ída Bjarklind Magnúsdóttir 1.

Varin skot: Ágústa Tanja Jóhannsdóttir 9.

Tölfræði leiksins hjá HBStatz.