Fara í efni
Íþróttir

KA verður að vinna til að enda í efri hlutanum

Hallgrímur Mar Steingrímsson og félagar í KA taka á móti Vestra í dag. Hallgrímur hefur gert sjö mörk í Bestu deildinni í sumar og er markahæstur KA-manna. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA verður að vinna Vestra í dag, í lokaumferð Bestu deildarinnar í knattspyrnu, til þess að enda í efri hlutanum þegar deildinni verður skipt í tvennt. Liðin mætast á Greifavelli KA. Sigur í dag er reyndar ekki nóg því KA-menn verða að treysta á að hvorki Fram né ÍBV fái stig; Framarar mæta FH-ingum í Kaplakrika í dag og Eyjamenn sækja Íslandsmeistara Breiðabliks heim á morgun.

  • Besta deild karla í knattspyrnu, 22. umferð
    Greifavöllurinn kl. 14:00
    KA - Vestri

Sigri KA í dag og bæði Fram og ÍBV geri jafntefli verða þessi þrjú lið jöfn að stigum en markamunur sunnanliðanna er mun betri. Fram hefur skorað einu marki meira en liðið hefur fengið á sig – er með eitt mark í plús, eins og stundum er sagt, ÍBV er með fjögur mörk í mínus og KA 13 mörk í mínus.

Hér má sjá stöðu liðanna sem berjast um að enda í efri hlutanum að lokinni hefðbundinni 22 leikja tvöfaldri umferð, áður en þau sex efstu halda áfram innbyrðis keppni um Íslandsmeistaratitilinn og þau sex neðri mætast einnig innbyrðis. Á endanum falla tvö neðstu liðin.

Smellið á myndina til að sjá stöðu allra liða í deildinni.

 

Vestramenn fóru ekki vel af stað í fyrsta deildarleik eftir að þeir urðu bikarmeistarar, töpuðu stórt fyrir Víkingum, en gerðu síðan jafntefli við KR í síðustu umferð. KA fékk blauta tusku í andlitið á lokamínútum leiks gegn Stjörnunni í síðustu umferð og tapaði 3:2. Vestri vann fyrri viðureignina gegn KA í sumar, 1:0, á Ísafirði.