Fara í efni
Íþróttir

KA og Afturelding skiptu með sér stigunum

Arnór Ísak Haddsson skoraði tvö mörk í dag, hér er það seinna (24:22) að verða að veruleika þrátt fy…
Arnór Ísak Haddsson skoraði tvö mörk í dag, hér er það seinna (24:22) að verða að veruleika þrátt fyrir að einn gestanna ásælist treyju KA-mannsins af óvenju miklum þunga. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA og Afturelding gerðu jafntefli, 25:25, í Olís deild Íslandsmótsins í handbolta í KA-heimilinu í dag. Staðan í hálfleik var 13:13.

Gestirnir voru frískir framan af leik, léku við hvern sinn fingur í sókn og slógu KA-menn út af laginu með mjög góðum og vel útfærðum varnarleik. Þeir komust mest fjórum mörkum yfir, 9:5, en eftir að KA-strákarnir fóru í gang komust þeir yfir en gestirnir áttu reyndar síðasta orðið fyrir hlé.

KA-menn höfðu svo yfirhöndina lengst af seinni hálfleiknum og voru tveimur mörkum yfir þegar fjórar mínútur voru eftir og með boltann. Blær Hinriksson, sem átti stórgóðan leik í lið gestanna, gerði tvö síðustu mörkin og KA náði ekki að nýta síðustu sóknina þrátt fyrir leikhlé Jónatans þjálfara til að skipuleggja hana.

KA missti boltann þegar nokkrar sekúndur voru eftir,  Úlfar Páll Monsi Þórðarson tók á sprett fram kantinn en tíminn rann út áður en hann náði að ógna marki heimamanna.

Afmælisbarn dagsins, Ólafur Gústafsson, gerði 8 mörk fyrir KA í dag, Óðinn Þór Ríkharðsson 5, Jón Heiðar Sigurðsson og Allan Norðberg 4 hvor, Arnór Ísak Haddsson 2 og þeir Einar Birgir Stefánsson og Patrekur Stefánsson 1 hvor.

UPPFÆRT - Eftir leikina sem fóru fram í kvöld er staðan þessi í deildinni:

 1. Haukar 19 leikir – 30 stig
 2. Valur 19 leikir – 28 stig
 3. FH 18 leikir – 26 stig
 4. ÍBV 18 leikir – 25 stig
 5. Selfoss 19 leikir – 22 stig
 6. Stjarnan 19 leikir – 20 stig
 7. KA 19 leikir – 20 stig
 8. Afturelding 19 leikir – 19 stig
 9. Grótta 19 leikir – 15 stig
 10. Fram 19 leikir – 14 stig
 11. HK 19 leikir – 4 stig
 12. Víkingur 19 leikir – 3 stig

Áttu efstu liðin komast í úrslitakeppnina. Flest liðin eiga þrjá leiki eftir, KA-menn þessa:

 • Haukar – KA
 • KA – Selfoss
 • Grótta – KA

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina

Þrír leikmanna KA voru heiðraðir fyrir leikinn í dag í tilefni þess að þeir hafa allir rofið 100 leikja múrinn með KA upp á síðkastið. Frá vinstri: Haddur Stefánsson, formaður handknattleiksdeildar KA, Einar Birgir Stefánsson, Jón Heiðar Sigurðsson og Ragnar Snær Njálsson. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.