Fara í efni
Íþróttir

KA-menn voru langt frá sínu besta

Adam Thorstensen ver frá hornamanninum Jóhanni Geir Sævarssyni. Adam var frábær í seinni hálfleik. L…
Adam Thorstensen ver frá hornamanninum Jóhanni Geir Sævarssyni. Adam var frábær í seinni hálfleik. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA-menn urðu að bíta í það súra epli að tapa fyrir Stjörnunni í KA-heimilinu í kvöld, í Olís deild Íslandsmótsins í handbolta. Gestirnir unnu með fimm marka mun, 32:27, eftir að þeir höfðu eins marks forskot, 17:16, í hálfleik. 

Sigur Stjörnumanna var mjög sanngjarn. Fyrri hálfleikurinn var í jafnvægi, bæði lið léku ágætlega nema hvað markvarsla var lítil sem engin. Það átti reyndar eftir að breytast í seinni hálfleik; þá tók 18 ára Stjörnumaður, Adam Thorstensen, sig til og varði 14 skot, mörg hver úr dauðafæri, en hann hafði varið eitt í fyrri hálfleik. Adam varði 41,2% skota sem komu á markið og átti stóran þátt í sigri Stjörnunnar en KA-menn geta þó ekki bent á það sem einu ástæðu þess hvernig fór. Þeir léku einfaldlega illa í seinni hálfleik, bæði í sókn og vörn. Stjörnumenn voru miklu áræðnari í sókninni og grimmir í vörn og stórbrotin markvarsla Adams hefur án efa blásið þeim baráttuanda í brjóst.

KA-menn sakna mjög greinilega Ólafs Gústafssonar, sem ekki hefur leikið um hríð og er enn á meiðslalistanum. Þá sárvantar Ólaf í vörnina, eðlilega, og reynsla hans hefði komið að góðum notum í sóknarleiknum í kvöld. Ekki bætti úr skák að fyrirliði KA, Daði Jónsson, fór veikur heim áður en leikurinn hófst og Færeyingarnir tveir, Allan Nordberg og Satchwell markvörður, sem fóru utan í landsleikjatörninni, eru nýkomnir úr sóttkví og hafa ekki æft með liðinu undanfarna daga. Allt hefur þetta að sjálfsögðu áhrif. KA-menn fá tækifæri til að sýna sitt rétta andlit á ný strax á fimmtudagskvöldið, en þá mæta þeir Haukum í Hafnarfirði.

Ekki var að undra að Stjörnumenn fögnuðu sigrinum innilega því þeir komust upp fyrir KA, hafa nú 16 stig, eins og Selfoss og Fram, og eru í 6. til 8. sæti. KA fór hins vegar niður í 9. sæti, hefur 15 stig, en á einn leik til góða. Með sigri í honum kemst KA upp fyrir Stjörnuna á ný, en ljóst er að hörð barátta er framundan um sæti í úrslitakeppni Íslandsmótsins. Þangað komast átta efstu liðin.

Mörk KA: Árni Bragi Eyjólfsson 9 (4 víti), Áki Egilsnes 4, Jón Heiðar Sigurðsson 4, Patrekur Stefánsson 4, Einar Birgir Stefánsson 4, Allan Nordberg 1 og Andri Snær Stefánsson 1.

Nicholas Satchwell varði 8 skot í leiknum, af 38 sem hann fékk á sig - sem er 21,1% markvarsla.

Smelltu hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum.

Björgvin Hólmgeirsson var mjög öflugur í kvöld og gerði sex mörk. Áki Egilsnes og Ragnar Snær Njálsson náðu ekki að stöðva hann í þetta skipti. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Dagur Gautason lék í fyrsta skipti gegn KA á gamla heimavellinum. Hann hafði að vísu mjög hægt um sig en fór burt með stigin tvö. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.