Fara í efni
Íþróttir

KA-menn töpuðu fyrir Val og eru úr leik

Árni Bragi Eyjólfsson var markahæstur ásamt Áka Egilsnes, í kveðjuleik beggja með KA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Valur vann öruggan fimm marka sigur á KA, 33:28, í seinni leik liðanna í átta liða úrslitum Olísdeildar Íslandsmóts karla í handbolta í Valsheimilinu í kvöld. KA-menn eru þar með úr leik en Valsmenn mæta Vestmannaeyingum í undanúrslitum. Stjarnan sló Selfoss út í kvöld og mætir deildarmeisturum Hauka í hinni rimmu undanúrslitanna.

KA tapaði fyrri leiknum með fjögurra marka mun á heimavelli, svo vitað mál var að verkefni kvöldsins yrði erfitt. KA-menn höfðu nokkrum sinnum eins eða tveggja mark forystu fram í miðjan fyrri hálfleikinn en eftir að Valsarar komust í 15:14 horfðu þeir aldrei um öxl. Staðan í hálfleik var 18:16.

Heimamenn hófu seinni hálfleikinn af miklum krafti og voru komnir í fimm marka mun eftir nokkrar mínútur, 22:17. KA-mönnum voru mjög mislagðar hendur í sóknarleiknum á þessum kafla. Þeir náðu svo að saxa örlítið á forskotið, staðan var þá 27:23, þegar um þrettán mínútur voru eftir en möguleikinn á því að fara áfram var í raun löngu úr sögunni.

Mörk KA: Árni Bragi Eyjólfsson 7 (1víti), Áki Egilsnes 7, Patrekur Stefánsson 6, Andri Snær Stefánsson 2, Einar Birgir Stefánsson 2, Ragnar Snær Njálsson 1, Jóhann Geir Sævarsson 1, Arnór Ísak Haddsson 1 og Jón Heiðar Sigurðsson 1.

Nicholas Satchwell gerði 9 skot (1 víti) - fékk á sig 35 skot svo hann var með 25,7% vörslu. Bruno Bernat varði 3 skot af 10.

Smelltu hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.