Fara í efni
Íþróttir

KA-menn sáu ekki til sólar gegn Val

Arnór Ísak Haddsson var markahæstur KA-manna gegn Val. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Arnór Ísak Haddsson var markahæstur KA-manna gegn Val. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn steinlágu þegar þeir sóttu Vals­ara heim í Olísdeild Íslandsmótsins í handbolta í gær. Eftir að staðan var 18:10 í hálfleik fyrir heimamenn urðu lokatölur 33:20. Eftir sjö leiki í röð án taps var KA-strákunum heldur betur kippt niður á jörðina af Íslandsmeisturunum.

Nánast ekkert gekk upp hjá KA-mönnum í leiknum og tölurnar segja í raun allt sem segja þarf. Sóknarleikurinn var afleitur og þeir réðu afar illa við gestgjafa sína í vörninni.

Arnór Ísak Haddsson var sá eini sem lék nálægt eðlilegri getu í sóknarleik KA, þessi stórefnilegi 19 ára drengur gerði sjö mörk. Nicholas Satcwell markvörður varði vel á tímabili, alls átta skot.

Mörk KA: Arnór Ísak Haddsson 7, Óðinn Þór Ríkharðsson 3 (1 víti), Skarphéðinn Ívarsson 2, Allan Norðberg 2, Jóhann Geir Sævarsson 2, Arnar Freyr Ársælsson 1, Patrekur Stefánsson 1, Einar Birgir Stefánsson 1 og Haraldur Bolli Heimisson 1.

KA er í áttunda sæti deildarinnar með 15 stig eftir 16 leiki. Næsti leikur liðsins er á föstudaginn klukkan 18.00 þegar FH kemur í heimsókn.

Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.