Fara í efni
Íþróttir

KA-menn kjöldregnir af Víkingum – MYNDIR

Daníel Hafsteinsson í baráttu við Davíð Örn Atlason í leiknum. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

KA-menn fengu 4:0 skell á heimavelli gegn Víkingi Reykjavík í leik í 15. umferð Bestu deildar karla í dag. Spilamennska KA-liðisins var slök og voru yfirburðir Víkinga algjörir.

Fyrir leikinn voru gerðar miklar breytingar á varnarlínu KA að mestu leiti vegna meiðsla og leikbanna. Kristijan Jajalo kom inn í markið fyrir Steinþór Má Auðunsson. Einnig komu inn í vörnina þeir Kristoffer Paulsen, Þorri Mar Þórisson og Ingimar Thorbjörnsson Stöle.

Hallgrímur Jónasson þjálfari KA þurfti að gera töluverðar breytingar á varnarlínu sinni fyrir leikinn.

_ _ _ 

0:1 – Dýrkeypt mistök Jajalo

Það voru aðeins þrjár mínútur liðnar af leiknum þegar Víkingar komust yfir. Kristijan Jajalo var með boltann og átti hræðilega sendingu beint á Nikolaj Hansen sem stóð við vítateigslínuna. Hann sendi boltann til vinstri á Birni Snæ sem átti einfalda sendingu fyrir markið þar sem Matthías Vilhjálmsson var mættur og renndi boltanum yfir línuna. Algjör gjöf frá Jajalo.

Markið virtist slá KA-menn algjörlega út af laginu og voru Víkingar mun hættulegri aðilinn framan af og KA liðið fékk ekki mikið um opin færi.

_ _ _

0:2

Annað mark Víkinga kom eftir gott einstaklingsframtak frá Birni Snæ Ingasyni. Birnir fékk þá boltann á vinstri kantinum, fór afar auðveldlega fram hjá Ingimar Stöle, keyrði inn á teiginn og átti gott skot í fjærhornið úr þröngu færi. Þarna var varnarleikur KA ekki til útflutnings.

Birnir Snær er hér lengst til vinstri á myndinni

Staðan var 2:0 Víkingum í vil þegar Erlendur Eiríksson flautaði til hálfleiks.

_ _ _

0:3

Matthías Vilhjálmsson gerði annað mark sitt og endanlega út um leikinn í upphafi síðari hálfleiks. Eftir hornspyrnu sem gestirnir tóku stutt barst boltinn inn á teig KA. Þar náði Mattías að komast fram fyrir varnarmenn KA og koma boltanum í netið.

Barátta í teig KA eftir hornspyrnu

Eftir markið róaðist töluvert yfir leiknum enda úrslitin ráðin. KA-menn voru aðeins meira með boltann en Víkingar voru klárir að beita skyndisóknum.

_ _ _

0:4

Fjórða mark leiksins var afar einfalt. Sending upp á miðju þar sem Daniel Dejan Duric náði að flikka boltanum yfir vörn KA. Þar var Ari Sigurpálsson sloppinn í gegn frá miðju. Hann keyrði upp völlinn og átti skot sem fór í Jajalo og inn. Afar einfalt mark fyrir Víkinga.

Svipbrigði Þorra á myndinni lýsa vel hvernig spilamennska KA-liðsins gekk í dag.

Lokatölur á Greifavellinum 4:0 fyrir Víkinga sem voru að vonum sáttir í leikslok.

_ _ _

Varnarleikur KA liðsins var afar slakur í leiknum og hefur verið það í sumar á móti þeim liðum sem eru við topp deildarinnar. Í þeim leikjum sem liðið hefur spilað við Val, Víking og Breiðablik er niðurstaðan 0 stig og markatalan 0:11 úr fjórum leikjum.

Ásgeir Sigurgeirsson í baráttunni við varnarmenn Víkinga í leiknum. KA-liðinu gekk illa að skapa sér færi í leiknum í dag. 

Lið KA í fyrra spilaði agaðan varnarleik og var ekki mikið að fá sig af mörkum. Í fyrstu 22 leikjum síðasta tímabils fékk liðið á sig 26 mörk eða 1,18 mark á sig að meðaltali í leik. Í ár hefur liðið fengið á sig 15 mörk í 9 leikjum eða 1,66 mark í leik. Það er því ljóst að varnarleikur liðsins þarf að taka framförum á næstunni.

Það verður þó ekki tekið frá Víkingum að lið þeirra er að spila frábærlega þessa dagana, þeir hafa unnið alla sína leiki og er erfitt að sjá eitthvað lið stoppa þá ef spilamennskan heldur áfram svona.

KA liðið fær nú nokkra leiki á næstunni gegn liðum sem eru neðar í töflunni. Það verður áhugavert að sjá hvernig liðið bregst við þessu tapi. Næsti lekur liðsins er á heimavelli gegn Fram og fær liðið tækifæri þar að sýna að þessi frammistaða var ekki það sem koma skal.