Fara í efni
Íþróttir

KA mætir Val - fyrri leikur næsta þriðjudag

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, hellti úr skálum reiði sinnar yfir Magnús Sigurólason tímavörð eftir að KA og Valur gerðu jafntefli í KA-heimilinu um miðjan febrúar. Þeir „vinirnir“ hittast á ný á þriðjudaginn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA endaði í 6. sæti Olís deildar Íslandsmótsins í handbolta, eftir jafnteflið við Þór í gærkvöldi, og mætir því Val í átta liða úrslitunum. Valsmenn urðu í þriðja sæti deildarinnar.

Úrslitakeppnin verður með öðru sniði nú en venjulega, vegna þess hve mótið hefur tafist vegna Covid. Í stað þess að lið þurfi tvo sigra til að komast áfram mætast liðin einungis tvisvar; leikið verður heima og að heiman, og fer seinni leikurinn fram á heimavelli liðsins sem endaði í efri hluta deildarinnar. Vinni liðin sinn hvorn leikinn fer það lið áfram sem skorar fleiri mörk á útivelli. Sé markatalan hnífjöfn eftir tvo leiki verður gripið til vítakastskeppni.

Leikirnir framundan eru þessir:

  • KA – Valur þriðjudag 1. júní klukkan 18.00
  • Valur – KA föstudag 4. júní klukkan 20.00

Aðrar viðureignir eru þessar:

ÍBV - FH

Afturelding - Haukar

Stjarnan - Selfoss

  • Allir leikir verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.