Fara í efni
Íþróttir

KA mætir FH í fyrsta deildarleik Óla Jó

Steinþór Már Auðunsson – Stubbur – hefur leikið vel í markinu hjá KA í sumar og varði m.a. víti frá danska markakónginum Patrik Pedersen hjá Val í síðustu umferð Íslandsmótsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

FH tekur á móti KA í Pepsi Max deildinni í knattspyrnu, efstu deild Íslandsmótsins, í Kaplakrika í dag klukkan 16.00. FH-ingar hafa verið í töluverðum mótbyr það sem af er sumri, eru í sjötta sæti deildarinnar með 11 stig eftir níu leiki en KA-menn eru hinsvegar í þriðja sæti með 16 stig, eftir átta leiki.

KA er í fínum málum í toppbaráttunni en tapaði að vísu síðasta deildarleik 1:0 fyrir Val á Dalvík, sem frægt varð því þrjú víti fóru forgörðum; KA klúðraði tveimur og Valur einu. FH steinlá í síðustu umferð, 4:0, fyrir Breiðabliki og í kjölfarið hætti Logi Ólafsson sem þjálfari Hafnarfjarðarliðsins. Ólafur Jóhannesson, einn reyndasti þjálfari landsins, tók við en undanfarin ár var henn lengst af þjálfari Vals og gerði liðið að stórveldi á ný. Það var einmitt Ólafur sem var við stjórnvölinn þegar FH-ingar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta skipti í september 2002 – með sigri á KA í grenjandi rigningu á Akureyrarvelli!

Leikurinn verður sýndur beint á stod2.is