Fara í efni
Íþróttir

Mjög gott lið sem getur unnið hvern sem er

Arnar Grétarsson þjálfari KA glaðbeittur í KA-heimilinu í vikunni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Arnar Grétarsson þjálfari KA glaðbeittur í KA-heimilinu í vikunni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA-menn hefja keppni í Pepsi Max deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, í Kópavogi síðdegis þegar þeir mæta HK. Leikurinn hefst klukkan 17.00

Arnar Grétarsson, þjálfari KA, er ánægður með liðið en segir að aðstaða knattspyrnumanna á Akureyri sé ekki boðleg, eins og fram kom á Akureyri.net fyrr í dag. Hann er ekki sá fyrsti sem lýsir þeirra skoðun. „Mér finnst sorglegt að svona stórt bæjarfélag bjóði ekki upp á betri aðstöðu fyrir knattspyrnu. Hún er ekki boðleg og er að mínu mati langt fyrir neðan þann standard sem ætti að vera á Akureyri. Þótt Þór sé með upphitaðan grasvöll er það ekki nóg; hér ættu að vera tveir topp gervigrasvellir með flóðljósum,“ sagði Arnar.

„Þetta eru ekki afsakanir heldur staðreyndir. Ég tel okkur með frábært lið en aðstaðan er alls ekki til að hrópa húrra fyrir og það er mikið áhyggjuefni fyrir KA-menn,“ segir Arnar. 

    • Sjá hér: Liðið mjög gott en aðstaðan ekki boðleg

Ótrúleg óheppni

KA-menn urðu fyrir ótrúlegum skakkaföllum í vikunni, þegar markvörðurinn Kristijan Jajalo handleggsbrotnaði á æfingu og belgíski miðjumaðurinn Sebastian meiddist líka.

Óttast er að Jajalo verði frá í þrjá mánuði. „Oftast eru menn fljótari að ná sér en mér skilst að þetta sé óvenju leiðinlegt brot. Sebastian er spurningamerki; hann gat ekki stigið í fótinn strax eftir að hann meiddist en var mættur í ræktina fljótlega og gekk eðlilega. Hann verður sennilega myndaður eftir helgi þegar bólgann verður orðin minni og ef hann hefur ekki slitið neitt gætu verið tvær til þrjár vikur þangað til hann verður leikfær.“

Óheppnin elti KA-menn líka í fyrra. Framherjinn Elfar Árni Aðalsteinsson, markahæsti leikmaður liðsins sumarið áður, var ekkert með eftir að hann sleit krossband, Hallgrímur Jónasson var líka meiddur og Ásgeir Sigurgeirsson, sá öflugi sóknarmaður, var í raun ekki enn ekki nema hálfur maður eftir alvarleg meiðsli sumarið 2018.

„Staðan núna er auðvitað ekki ákjósanleg. Elfar Árni var kominn inn í liðið í Lengjubikarnum en fékk smá bakslag þegar hann spilaði heilan leik fyrir 10 dögum. Það er slæmt því hann er mjög öflugur en við gætum þurft að bíða í nokkrar vikur eftir honum. Tvíburarnir, Þorri og Nökkvi, brotnuðu líka báðir í fyrra og við reiknuðum með að fá þá til baka en Þorri tognaði um daginn, er þó að æfa og gæti orðið tilbúinn í leikinn gegn KR eftir viku.“

Fárveikir með Covid

„Bjarni Aðalsteinsson og Ýmir Geirsson áttu báðir að koma frá Bandaríkjunum en fengu Covid og urðu fárveikir. Þeir koma því ekki strax! Við gerðum ráð fyrir að Bjarni myndi setja miklu pressu á aðra um að komast í liðið, planið var reyndar að Ýmir yrði lánaður af því við erum með svo stóran hóp, en eins og staðan er núna hefðum við notað hann.“

Þá meiddist miðvörðurinn snjalli, Brynjar Ingi Bjarnason, lítillega á dögunum en Arnar reiknaði með að hann yrði leikfær í dag. Nökkvi, sem hefur verið frá um tíma, ætti einnig að vera klár í slaginn í dag því hann hefur æft vel síðustu daga. „Hann ætti að geta leikið í að minnsta kosti klukkutíma, en við þurfum að vera á tánum og passa strákana. Þegar við verðum með alla heila óttast ég ekkert; þá verðum við með sex góða Pepísdeildarmenn á bekknum en á móti HK verðum við væntanlega með þrjá unga stráka á bekknum og óvenju marga varnarmenn. Staðan á leikmannahópnum er þannig núna.“

Allt hægt!

KA-menn urðu í sjöunda sæti Pepsi Max deildarinnar í fyrrasmar og stefna eðlilega enn hærra að þessu sinni.

„Við vorum jafnteflismeistarar í fyrra en okkar fannst að við hefðum átt að vinna nokkra þeirra leikja þar sem jafntefli varð. Ég tel okkur vera lið sem getur unnið hvern sem er þótt við séum enn í fyrsta áfanga uppbyggingar við að búa til gott lið og umgjörð. Það eru fimm til sex lið sem ætla sér alla leið og við látum okkur dreyma um ákveðna hluti.

Breiðablik er að fara inn í annað árið með sama þjálfara og kjarninn eru leikmenn sem hafa spilað saman í mörg ár. KR-inga hafa verið undir radarnum en eru með mjög sterkan hóp og ég reikna með að þeir fái einn eða tvo góða leikmenn áður  en félagaskiptaglugganum verður lokað. Valur er auðvitað með mjög sterkan hóp, FH er búið að styrkja sig mjög mikið og Stjarnan er líka öflug. Okkur langar að keppa við þessi lið en til að svo verði þurfa hlutirnir að ganga upp. Við höfum lent í miklum skakkaföllum undanfarið og það er 100% öruggt að við verðum sterkari þegar líður á mótið.“

Arnar bendir á að KA-menn hafi ekki fengið marga góða æfingaleiki undanfarið. „Við tókum þátt í Kjarnafæðismótinu og spiluðum við HK, Val og Breiðablik í Lengjubikarnum á meðan hin liðin hafa spilað miklu fleiri betri æfingaleiki – sem skiptir miklu máli. Markmiðið er að sjálfsögðu að keppa að einhverju. Við segjumst ekki ætla að verða Íslandsmeistarar, en ef allt gengur upp getum við keppt um þrjú efstu sætin – og ef við verðum þar er allt hægt. Við gætum líka orðið fimmta eða sæti því það má svo lítið út af bregða, en við erum allir sammála um að hópurinn er mjög góður.“

Miklu meiri sóknarþungi

Liðið er töluvert breytt frá því í fyrra. Á hverju mega stuðningsmennirnir eiga von í sumar?

„Við viljum vera dóminerandi; viljum halda boltanum og stjórna leikjum. Ég hef alltaf hugsað þannig sem þjálfari. Í fyrra var dálítið talað um að ég væri mikill varnarþjálfari sem mér fannst mjög fyndið! Ég hef nefnilega lagt lítinn áherslu á þann þátt eins og allir þeir leikmenn sem ég hef þjálfað vita. Auðvitað æfum við varnarleik en sóknarleikinn miklu meira,“ segir Arnar.

Hann á von á miklu meiri sóknarþunga í liðinu en í fyrrasumar, þegar allir marksæknustu leikmenn liðsins verða komnir í toppstand.

„Ásgeir Sigurgeirsson er frábær leikmaður en var ekki líkur sjálfum sér í fyrra eftir erfið meiðsli, Grímsi [Hallgrímur Mar] átti ekki sitt besta tímabil, Elfar var meiddur og ekkert með og Nökkvi lítið með. Allir þessir leikmenn eru komnir eða að koma til baka þannig að fremsti hluti liðsins verður allt öðruvísi en í fyrra.

Það verður aldrei tekið af Ásgeiri að hann er sterkur og mjög duglegur. Hann býr yfir miklum gæðum og skorar flott mörk, en vegna meiðsla var hann langt því sem sem hann getur í fyrra og hittifyrra. Ásgeir hefur hins vegar sýnt núna á undirbúningstímabilinu að hann er að líkjast sjálfum sér. Grímsi hefur líka verið mjög flottur; hann verður sífellt sterkari og er orðinn meiri liðsmaður en áður. Hann hefur alltaf verið frábær knattspyrnumaður en spilað mikið fyrir sjálfan sig. Hefur viljað fá boltann til sín til að leika á menn og skjóta en það virkar ekki í dag. Menn verða að fá boltann í svæði og mér finnst hann taka leiðbeiningum mjög vel. Hann er orðinn enn betri leikmaður, líka miklu duglegri og er farinn að hlaupa mikið til baka og hjálpa í varnarleiknum.

Við ætlumst líka til mikils af Nökkva, hann hefur frábæra kosti en þarf að vera heill. Þorri hefur líka mikla hæfileika og auðvitað Sveinn Margeir.

Það verð ég að nefna Daníel Hafsteinsson, sem geysilega hæfileika. Ég hef stundum verið dálítið á bakinu á honum vegna þess að ef svona hæfileikaríkur strákur er nógu grimmur getur hann náð gríðarlega langt.“

KA-menn hafa leikið með einn mann aftast á miðjunni en tvo framar – tvær áttur eins og það er gjarnan kallað – og Daníel er annar þeirra. „Þeir tveir eiga bæði að búa til mörk og skora.“

Útlendingarnar til fyrirmyndar

Arnar er mjög ánægður með útlendingana þrjá sem komu til KA í vetur, Belgana Sebastian Brebels og Jonathan Hendrickx, og Serbann Dusan Brkovic, sem kom frá Ungverjalandi. „Þetta eru allt strákar sem hafa verið atvinnumenn alla sína tíð og eru með rétta hugarfarið; mæta á allar morgunæfingar og væla aldrei. Þeir hugsa vel um sig og eru frábærar fyrirmyndir fyrir ungu strákana okkar. Það hjálpar mikið.“

Fyrsti leikurinn er í dag klukkan 17.00 sem fyrr segir. Arnar er bjartsýnn: „Það verður örugglega hörkuleikur. Það fer enginn létt með að vinna HK því liðið er sterkt; við þurfum að eiga toppleik til þess að fá þrjú stig en það er að sjálfsögðu markmiðið og þetta er einn þeirra leikja þar sem hálfgerð krafa er um að vinna. Með fullri virðingu fyrir HK er það eitt þeirra liða sem menn verða að vinna ef þeir ætla að vera í toppbaráttu. Það væri frábært að komast á blað og fara þannig í leikinn við KR eftir viku.“

_ _ _ _ _

Komnir
Daníel Hafsteinsson frá Helsingborg í Svíþjóð
Dusan Brkovic frá Ungverjalandi
Jonathan Hendrickx frá Lommel í Belgíu
Sebastiaan Brebels frá Lommel í Belgíu
Steinþór Már Auðunsson frá Magna

Farnir
Almarr Ormarsson í Val
Aron Dagur Birnuson í Grindavík
Guðmundur Steinn Hafsteinsson til Þýskalands
Jibril Abubakar til Midtjylland (úr láni)
Mikkel Qvist til Horsens (úr láni)

Fyrstu fimm leikir KA
1. maí HK - KA
7. maí KR - KA
12. maí KA - Leiknir
17. maí Keflavík - KA
21. maí KA – Víkingur