Fara í efni
Íþróttir

KA getur komist að hlið Breiðabliks í 3. sæti

Daníel Hafsteinsson skoraði í síðasta leik - 2:0 sigri á HK. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Daníel Hafsteinsson skoraði í síðasta leik - 2:0 sigri á HK. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA-menn taka á móti Keflvíkingum í dag í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Pepsi Max deildinni, og geta með sigri komist upp að hlið Breiðabliks í þriðja sæti; bæði lið yrðu þá með 26 stig að loknum 14 leikjum.

KA vann fyrri leik liðanna mjög örugglega í Keflavík, 4:1. Ásgeir Sigurgeirsson gerði tvö mörk í þeim leik, Hallgrímur Mar Steingrímsson og Elfar Árni Aðalsteinsson sitt markið hvor.

Í síðustu umferð gerðu Keflvíkingar sér lítið fyrir og unnu Breiðablik 2:0 á heimavelli en Blikar, sem hafa annars leikið mjög vel undanfarið, burstuðu Víkinga 4:0 í gær. Blikarnir höfðu reyndar mikla yfirburði í Keflavík en mörkin eru talin í lok leikja og ekkert annað, eins og margoft hefur verið bent á, og greinilegt að ekki má vanmeta lið Keflavíkur.

KA-menn sigruðu Leikni 1:0 á útivelli í síðasta leik og þar áður lögðu þeir HK að velli 2:0, í fyrsta leik sumarsins á Akureyrarvelli (Greifavellinum). Ásgeir Sigurgeirsson skoraði á Leiknisvellinum, hann var aftur á ferðinni gegn HK og Daníel Hafsteinsson gerði seinna mark leiksins.

Flautað verður til leiks klukkan 18.00 í dag.

Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni.