Fara í efni
Íþróttir

KA gegn Stjörnunni í dag í bikarkeppninni

Elfar Árni Aðalsteinsson fagnar eftir að hann gerði sigurmarkið gegn Stjörnunni í Garðabæ í Pepsi Ma…
Elfar Árni Aðalsteinsson fagnar eftir að hann gerði sigurmarkið gegn Stjörnunni í Garðabæ í Pepsi Max deildinni fyrr í sumar. Ljósmynd: fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð.

KA mætir Stjörnunni í 32 liða úrslitum bikarkeppninnar í knattspyrnu, Mjólkurbikarkeppninni, í Garðabæ í dag klukkan 18.00. Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport 4.

KA hefur gengið vel í Pepsi Max deild Íslandsmótsins og er í þriðja sæti deildarinnar með 16 stig eftir átta leiki en Stjarnan er í áttunda sæti með 10 stig að loknum 10 leikjum. Liðið byrjaði afleitlega en eftir að Þorvaldur Örlygsson, fyrrverandi leikmaður og þjálfari KA, var ráðinn aðalþjálfari Stjörnunnar hefur liðinu gengið betur. Stjörnumenn hafa unnið tvo leiki í deildinni í sumar – tvo þá síðustu; fyrst Íslandsmeistara Vals 2:1 og síðan HK 2:1, báða á heimavelli.

Liðin mættust á Samsungvellinum í Garðabæ í 6. umferð Íslandsmótins í lok maí og KA sigraði þá 1:0 með marki Elfars Árna Aðalsteinssonar seint í leiknum.