Fara í efni
Íþróttir

KA gegn Fylki og næsti heimaleikur heima

Hluti stuðningsmanna KA á leiknum gegn KR á dögunum, síðasta heimaleiknum á Dalvík í sumar. Ljósmynd…
Hluti stuðningsmanna KA á leiknum gegn KR á dögunum, síðasta heimaleiknum á Dalvík í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA-menn mæta Fylki í Reykjavík í dag í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Pepsi Max deildinni. Með sigri færi KA í 20 stig, yrði áfram í fimmta sæti en ætti þó einn leiki til góða á KR sem er með 21 stig í fjórða sæti. Leikurinn hefst klukkan 18.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Fylkismenn eru í 10. og þriðja neðsta sæti með 11 stig í jafn mörgum leikjum. Þeir töpuðu síðasta leik 2:1 á heimavelli fyrir HK, sem er í næst neðsta sæti og KA-menn töpuðu síðasta leik 2:1 fyrir KA á „heimavelli“ sínum á Dalvík.

Nú er ljóst að næsti heimaleikur KA verður á Akureyrarvelli (Greifavelli), sunnudaginn 18. júlí þegar HK kemur í heimsókn. Þetta er tilkynnt á heimasíðu KA.

„Það hefur ekki farið framhjá neinum að KA hefur spilað heimaleiki sína til þessa á Dalvíkurvelli. Þrátt fyrir að þurfa að gera sér ferð út fyrir bæjarmörkin og svo aftur heim hefur mikill fjöldi stuðningsmanna okkar ekki látið það stoppa sig og hefur mætingin á leikina á Dalvík verið til fyrirmyndar,“ segir í ávarpi til stuðningsmanna KA á vef félagsins.

„Það er algjörlega ómetanlegt fyrir íþróttafélag eins og KA að finna fyrir þeim mikla stuðning og meðbyr sem þið stuðningsmenn og félagsmenn félagsins gefið frá ykkur,“ segir þar, og gestgjöfunum út með firði er einnig þakkað fyrir: „Á sama tíma og við kunnum ykkur bestu þakkir fyrir stuðninginn þökkum við Dalvíkingum kærlega fyrir frábærar móttökur en ekki nóg með að veita okkur aðgang að vellinum sínum þá stukku þeir til í öll verk sem tilheyra leik í efstu deild og var algjörlega frábært að vinna með þeim ótal snillingum sem gefa sig fyrir fótboltann í Dalvík.“

KA-menn fagna marki Elfars Árna Aðalsteinssonar í leiknum gegn KR á Dalvíkurvelli á dögunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.