Fara í efni
Íþróttir

KA byrjar á fimmtudag, Þór annan sunnudag

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Keppni í Olísdeild karla í handbolta hefst á ný í næstu viku eftir Covid-hlé. Fyrsti leikur KA verður á fimmtudaginn, sumardaginn fyrsta, gegn Gróttu á Seltjarnarnes en fyrsti leikur Þórs sunnudaginn 25. apríl þegar Valur kemur í heimsókn í Höllina.

Áður hafði verið tilkynnt að byrjað yrði mun seinna, en þeirri ákvörðun breytt í morgun að ósk forsvarsmanna félaganna

KA er sem stendur í níunda sæti með 15 stig eftir 14 leiki en Stjarnan sæti ofar með 16 stig eftir 15 leiki. Átta efstu liðin komast í úrslitakeppnina.

Þór er í 11. og næst neðsta sæti með sex stig eftir 15 leiki en Grótta sæti ofar með 10 stig að loknum jafn mörgum leikjum. Tvö neðstu liðin falla. ÍR-ingar eru neðstir án stiga.

Leikirnir sem KA á eftir 

  • Grótta – KA, fimmtudag 22. apríl 19.30
  • Haukar – KA, sunnudag 25. apríl 16.00
  • Afturelding – KA, föstudag 30. apríl 19.30
  • KA – FH, mánudag 3. maí 19.30
  • ÍR – KA, mánudag 10. maí 18.00
  • KA – ÍBV, sunnudag 16. maí 18.00
  • Valur – KA, mánudag 24. maí 19.30
  • KA – Þór, fimmtudag 27. maí 19.30

Leikirnir sem Þór á eftir 

  • Þór – Valur, sunnudag 25. apríl 16.00
  • Þór – Haukar, föstudag 30. apríl 18.00
  • Fram – Þór, mánudag 3. maí 19.30
  • Þór – Selfoss, sunnudag 9. maí 16.00
  • Grótta – Þór, sunnudag 16. maí 18.00
  • Stjarnan – Þór, mánudag 24. maí 19.30
  • KA – Þór, fimmtudag 27. maí 19.30

Fúkyrðaskotin fóru langt framhjá markinu

Áður hafði verið tilkynnt að mótið hæfist ekki á ný fyrr en mun síðar og féll sú ákvörðun vægast sagt í grýtta jörð; einstaka þjálfari og leikmaður í deildinni hafði uppi stór orð og gagnrýndu stjórn HSÍ harkalega.

Síðar var upplýst að ákvörðunin var tekin með tilliti til sjónarmiða formanna félaganna um að byrja ekki of fljótt vegna meiðslahættu og að ekki yrði spilað í landsleikjahléi til að gæta jafnræðis milli félaga. HSÍ vildi byrja strax svo föstu gagnrýnisskotin fóru öll langt framhjá, ef svo má segja – þjálfarar og leikmenn hefðu betur kynnt sér staðreyndir málsins áður en þeir opnuðu munninn og hleyptu fúkyrðunum út.

„Á formannafundi í dag óskuðu félögin í ljósi umræðu undanfarna daga að falla frá framangreindum sjónarmiðum og hefja deildina skv. fyrri tillögu HSÍ og jafnframt spila í landsleikjahléi, sem alla jöfnu er ekki gert en í ljósi ástandsins í þjóðfélaginu verður horft fram hjá því,“ segir í tilkynningu frá HSÍ í dag.

„HSÍ harmar þá neikvæðu umræðu sem hefur verið síðast liðna daga og stóryrtar yfirlýsingar þjálfara og leikmanna sem voru ekki í samræmi við sjónarmið félaganna sem þeir starfa hjá,“ segir í lok tilkynningar HSÍ.

Harma umræðuna

Í yfirlýsingu frá forráðamönnum liðanna harma þeir einnig umræðuna undanfarið. Þar segir:

„Við hörmum þá umræðu sem fór af stað eftir síðasta formannafund og áréttum að allar ákvarðanir og niðurstöður formannafunda eru algerlega á ábyrgð okkar formanna félaganna.

Við leggjum áherslu á að við erum einu forsvarsmenn félaganna gagnvart HSÍ og okkur ber að móta okkar afstöðu innan okkar félaga með þeim aðilum sem til þess eru þar bærir.

Við þær erfiðu aðstæður sem við búum við vegna Covid er mikilvægt að við stöndum saman og heil á bak við okkar sérsamband.“