Fara í efni
Íþróttir

Jajalo markmaður KA handleggsbrotinn!

Kristijan Jajalo á flugi gegn Gróttu í Pepsi Max deildinni í fyrrasumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Kristijan Jajalo, markvörður knattspyrnuliðs KA, handleggsbrotnaði á æfingu í gær og óvíst er hversu lengi hann verður frá. Fótboltavefur Íslands, fotbolti.net, greindi fyrst frá þessu í dag.

„Þetta eru meiðsli sem ekkert lið vill lenda í skömmu fyrir mót en þetta er partur af þessu sporti, menn meiðast og þetta var bara slys," sagði Arnar Grétarsson, þjálfari KA við vefinn. Fyrsti leikur KA í Íslandsmótinu, Pepsi Max deildinni, er gegn HK í Kópavogi á laugardaginn. Steinþór Már Auðunsson mun því verja mark á næstunni. Hann gekk til liðs við uppeldisfélagið á ný í vetur eftir að leikið annars staðar frá unglingsaldri; með Völsungi, Dalvík/Reyni, Þór og Magna, en han lék með Magna síðustu þrjú ár.

Brebels meiddist líka

Sebastiaan Brebels, belgíski miðjumaðurinn sem gekk til liðs við KA frá Lommel í vetur, meiddist einnig á æfingu í gær. „Hann meiddist en ekki vitað hversu lengi hann verður frá. Það er snúningur á ökkla, það verður að koma í ljós hvenær hann verður klár aftur," segir Arnar við fótboltavefinn.

fotbolti.net